Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., er bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.
Á sérstakri hátíðardagskrá í lok bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., útnefndur sem bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2018.
Steindi Jr., er alinn upp og búsettur í Mosfellsbæ. Hann er skapandi listamaður og hefur náð árangri á fleiri en einu sviði lista. Hann hefur gert sjónvarpsþætti, leikið og skrifað handrit og sannað sig bæði í leiklist og tónlist. Steinþór hefur gert garðinn frægan í gamanhlutverkum og í seinni tíð einnig verkum í alvarlegri kantinum en hann vann Edduna 2018 sem besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í myndinni Undir trénu. Hann er skapandi og frjór í sinni listsköpun og höfðar til breiðs hóps.
Þá hefur hann með áberandi hætti verið tengdur við Mosfellsbæ í mörgu að því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Í því tillit hefur hann lagt sig fram um að vekja athygli á uppruna sínum í Mosfellsbæ og tekið þátt í mörgum verkefnum innan bæjarins.
Menningarmálanefnd Mosfellsbæjar útnefnir ár hvert bæjarlistamann Mosfellsbæjar. Nefndin óskar árlega eftir tilnefningum eða ábendingum frá Mosfellingum um einstakling eða samtök listamanna í Mosfellsbæ, sem til greina koma að bera sæmdarheitið bæjarlistamaður ársins.
Ljósmyndari: Raggi Óla ljósmyndari Mosfellings.
Tengt efni
Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024
Á sérstakri hátíðardagskrá við setningu bæjarhátíðarinnar Í túninu heima í Mosfellsbæ fimmtudaginn 29. ágúst var leirlistakonan Þóra Sigurþórsdóttir útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024.
Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024 - Hægt að sækja um og tilnefna til og með 11. ágúst
Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2024 - Tilnefningar og umsóknir