Í ljós kom á vorönn 2022 að talsverður raki er í botnplötu Kvíslarskóla í kjölfar mælinga, sá raki er nýr og með öllu ótengdur þeim framkvæmdum sem farið var í árið 2019 í skólanum þar sem vel tókst til við þurrkun og endurgerð. Árangur af þeirri framkvæmd var staðfestur af EFLU verkfræðistofu og verktakafyrirtækinu Ístaki árið 2020.
Nú er búið að fjarlægja allt gólfefni af fyrstu hæð Kvíslarskóla og fjarlægja allt rakaskemmt efni af þeirri hæð. Unnið er að því að brjóta upp ílögn í anddyri og á salernum. Allar innréttingar á salernum hafa verið fjarlægðar. Einnig verður haldið áfram vinnu við að gera salerni og anddyri klár til uppbyggingar. Kerfisloft á fyrstu hæð skólans hafa verið tekin niður. Ennfremur er verið að steinslípa og þétta gafl við aðalinngang ásamt því að brjóta ofan af eldri lögnum sem verða aflagðar.
Undirbúningur fyrir endurnýjun á drenlögnum umhverfis allan skólann stendur yfir en áætlað er að sá verkþáttur verði unninn á meðan að skólinn er lokaður í sumar. Þá er unnið að tilboðsöflun í endurnýjun á gluggum Kvíslarskóla.
Unnið er undirbúningi á uppsetningu lausra kennslustofa austan við Kvíslarskóla eða á þeim stað þar sem gömlu H&M-stofurnar stóðu.