Varmárvöllur:
Hluti af jarðvinnu við knattspyrnuvöll að Varmá fól í sér fergingu á vellinum og nú er fergingartímanum lokið. Búið er að flytja fargið af knattspyrnuvelli yfir á frjálsíþróttasvæði sem einnig þarf að fergja og þá er verið er að flytja umfram efni á brott. Stefnt er á útboð á yfirborðsfrágangi fyrir áramót. Búið er að samþykkja tilboð Metatron ehf. í lýsingu vallarins.
Varmárskóli – Vörumóttaka:
Unnið er að smíðum á nýrri vörumóttöku við Varmárskóla sem er staðsett við eldhús í suðurálmu skólans þ.e. í portinu á milli sundlaugarinnar og skólans. Stefnt er á að vörumóttakan verði tilbúin til notkunar í nóvember.
Leikskóli Helgafellshverfi:
Leikskólinn í Helgafellshverfi sem mun rúma 150 börn er stærsta einstaka framkvæmd við uppbyggingu skóla á fjárhagsárinu 2024. Búið er að loka húsinu og verið er að einangra og setja klæðningu upp að utan. Innandyra er unnið við lagnir og við að reisa milliveggi. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun og stefnt er á verklok sumarið 2025.
Leikskólinn Hlíð:
Unnið er að endurbótum á leikskólanum Hlíð í kjölfar rakaskemmda í tengibyggingu. Þegar viðgerð hófst kom í ljós að skemmdirnar voru meiri en gert hafði verið ráð fyrir og því var ákveðið að breyta lagi og efni á þaki. Þá verða gluggar endurnýjaðir og gólf lagfærð. Stefnt er á að framkvæmdum verði að fullu lokið í desember.
Íþróttahús Helgafellsskóla:
Búið er að koma upp öllum innri veggjum í nýju íþróttahúsi Helgafellsskóla og unnið er að því að spartla veggi og undirbúa fyrir málun. Flíslögn er að hefjast í búningsklefum og sturtum og áform eru um að hefja vinnu við að leggja gólfefni fyrir íþróttagólf í þessum mánuði. Verklok eru áformuð í janúar næstkomandi.
Eldhúsbygging Reykjakoti:
Vinna við eldhúsbyggingu leikskólans Reykjakots er á lokametrunum bæði að innan sem utan. Unnið er að því að koma fyrir búnaði og tengja. Verið er að vinna að frágangi á nánasta umhverfi vinnusvæðisins. Áætlað er að húsið verði komið í fulla notkun á næstu dögum.