Deiliskipulag fyrir Korputún sem er byggð fyrir verslunar-, þjónustu- og athafnasvæði, þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og samnýtingu, náttúru og aðlaðandi umhverfi hefur verið samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar.
Gert er ráð fyrir að vinna við gatnagerð hefjist á árinu og uppbygging fyrsta fasa strax í kjölfarið. Svæðið er hugsað sem lykil atvinnukjarni á höfuðborgarsvæði framtíðarinnar og mun samgönguás Borgarlínu liggja í gegnum skipulagssvæðið og er verkefnið í eigu Reita fasteignafélags.
ARKÍS arkitektar eru höfundar skipulagsins, en ARKÍS hefur víðtæka reynslu í hönnun umhverfisvænna bygginga og hafa áður unnið við BREEAM vottað skipulag en verkfræðistofan Mannvit mun hafa umsjón með BREEAM vottun skipulagsins.