Fötluðum börnum og ungmennum sem hafa áhuga á að umgangast hesta eða vilja kynnast hestamennsku gefst nú tækifæri til að sækja reiðnámskeið í reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ.
Námskeiðið er haldið á vegum Hestamannafélags Harðar sem hefur í samstarfi við Hestamennt ehf. hafið 5 vikna reiðnámskeið. Markmið námskeiðsins er að bæta líkamsvitund og auka samhæfingu handa, fóta og skynfæra, auka sjálfstæði og færni í samskiptum við hesta, kynnast hestinum og læra undirstöðuatriði í umhirðu hestsins ásamt að geta umgengist hesta af öryggi og óttaleysi. Styrkja leiðtogahlutverk í samskiptum við hestinn og eiga frábæra stund saman í skemmtilegur umhverfi. Lögð er áhersla á fjölbreytni og að allir nemendur fái sem mest út úr námskeiðinu eftir þörfum hvers og eins.
Kennslan er í höndum reyndra leiðbeinanda með margra ára reynslu í reiðkennslu fatlaðs fólks, sjúkraþjálfari verður til taks sem og aðrir aðstoðarmenn eftir þörfum. Umsjónarmaður námskeiðsins er Súsanna Ólafsdóttir, reiðkennari. Frekari upplýsingar og skráning er á vef hestamannafélagsins Harðar.
Félagið fékk nú á dögunum veglegan styrk frá Góða Hirðinum sem er eins og allir þekkja er góðgerðarstarfsemi á vegum Sorpu þar sem nýtanlegum hlutum sem hefur verið hent er haldið til haga og seldir. Ágóðanum af þessu er síðan deilt út til góðgerðarmála einu sinni til tvisvar á ári og í ár hlaut Hestamannafélagið Hörður ásamt öðrum góðum félögum styrk. Styrkurinn var veittur til að Hestamannafélagið gæti látið sérsmíða tvo hnakka fyrir fatlað fólk og stofnað fræðslunefnd.
Með þessu er langþráðu markmiði Harðarmanna náð að þjálfun fatlaðs fólks er hafið í Herði en það hefur lengi verið draumur Harðarmanna að leggja af mörkum til að fatlað fólk geti stundað reiðmennsku og var það eitt af markmiðum þeirra þegar ráðist var í hönnun reiðhallarinnar sem var vígð i nóvember 2009. Draumur þeirra var að þjálfun fatlaðs fólks gæti farið fram við góðar aðstæður og er allt fyrirkomulag reiðhallarinnar miðað við að svo geti orðið. Settar voru stórar innkeyrsludyr á húsið og ríflegt svæði við þær framan við reiðvöllinn sem gefa færi á að keyra inn bíla en hægt er að aka að sérstakri lyftu til að auðvelda praktísku hlutina. Þessi lyfta var gjöf frá Jón Levy sem lét smíða hana þegar hann átti orðið erfitt með að komast á bak vegna MS sjúdóms.
Fræðslunefnd fatlaðs fólks hjá Hestamannafélaginu Herði var stofnuð 14. október 2010. Nefndina skipa: Auður G. Sigurðardóttir, Frosti Richardsson og Leifur Leifsson. Aðaláherslur nefndarinnar er að skipuleggja og halda utan um námskeið sérhönnuð fyrir fatlað fólk, til dæmis þá sem búa við hreyfihömlun og þroskahömlun. Einnig er hugur á að ná til fólks sem er í endurhæfingu. Nefndin er í samstarfi við Hestamennt en þau eru með margra ára reynslu af vinnu með fötluðu fólki, verið að skipuleggja að halda námskeið og vera með reiðkennslu, bæði í formi almennrar reiðkennslu og sjúkraþjálfunnar. Harðarmenn eru stoltari en orð fá lýst að geta boðið upp á þessa þjónustu.
Tengt efni
Opnað fyrir nýtingu frístundaávísana allt árið
Fjölbreytt og skemmtilegt starf í Tröllabæ
Mosfellingur tvöfaldur heimsmeistari
Benedikt Ólafsson 19 ára Mosfellingur var valinn úr stórum hópi Landsliðs Íslands í hestaíþróttum til að taka þátt í Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi í sumar.