Samkomulag hefur verið gert um uppbyggingu á lóðum við Bjarkarholt 1-5 í Mosfellsbæ.
Samkomulag hefur verið gert um uppbyggingu á lóðum við Bjarkarholt 1-5 í Mosfellsbæ á grundvelli samþykktar á 1505. fundi bæjarráðs þann 30. september 2021. Eir öryggisíbúðir hafa í kjölfar þess gengið frá samningi um byggingu og kaup á íbúðarhúsnæði með um 100 þjónustuíbúðum fyrir aldraða sem verða reistar á lóðunum við Bjarkarholt 4-5 í Mosfellsbæ.
Með þessari uppbyggingu verður unnt að mæta þörfum fólks fyrir húsnæði í góðum tengslum við margháttaða þjónustu Mosfellsbæjar og Eirar við eldri einstaklinga.
Við þessa byggingunni verður reist um 400m2 hæð ofan á núverandi húsnæði Eirhamra, tengibygging sem tengir húsnæðið í Bjarkarholti við núverandi húsnæði að Eirhömrum.
Mosfellsbær leigir í dag húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar að Eirhömrum. Fyrir liggur að vegna fjölgunar eldri íbúa í sveitarfélaginu er þörf á stærra húsnæði undir þá þjónustu sem Mosfellsbær veitir, meðal annars undir félagsstarf sem og dagdvöl eldri borgara.
Nýlega var því skrifað undir samning við Eir um leigu á áðurnefndu 400m2 rými sem mun gera Mosfellsbæ kleift að auka félagsstarf í Mosfellsbæ og mæta framtíðar þörfum íbúa. Með viðbótarrými fyrir félagsstarfið verður til möguleiki á að sækja um stækkun á dagdvölinni til heilbrigðisráðuneytisins og nýta hluta af núverandi aðstöðu félagsstarfsins í þá stækkun. Á 1522. fundi bæjarráðs þann 10. febrúar sl. samþykkti bæjarráð að sækja um heimild fyrir stækkun dagdvalarinnar úr 9 rýmum í 15.
„Samstarf Mosfellsbæjar og Eirar hefur gengið mjög vel á liðnum árum og við erum full tilhlökkunar til að halda áfram að þróa þjónustu Mosfellsbæjar í þéttu samtali við íbúa og fulltrúa Eirar. Það er okkar sannfæring að þegar þessari uppbyggingu lýkur verði umgjörð félagsstarfs í Mosfellsbæ með því besta sem þekkist.“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.