Hoppa í meginmál
mos.is - Forsíða

Mos­fells­bær hef­ur ákveð­ið í ljósi þess ástands sem skap­ast hef­ur í at­vinnu­mál­um vegna Covid-19 far­ald­urs­ins að efna til sér­staks átaks um sum­arstörf fyr­ir ung­menni og náms­menn.

Í ár var gert ráð fyr­ir 70 sum­arstörf­um við stofn­an­ir Mos­fells­bæj­ar. Nú þeg­ar hef­ur ver­ið ráð­ið í þessi störf en í heild­ina bár­ust 145 um­sókn­ir. Í ljósi at­vinnu­ástands í sam­fé­lag­inu er lík­legt að erfitt geti ver­ið fyr­ir aðra um­sækj­end­ur að fá vinnu ann­ars­stað­ar.

Síð­ustu daga hef­ur fyr­ir­spurn­um um sum­arstörf fjölgað frá ungu fólki sem var búið að ráða sig í sum­ar­vinnu en hef­ur ný­lega feng­ið upp­lýs­ing­ar um að starf­ið standi þeim ekki leng­ur til boða. Við­bú­ið er að þessi hóp­ur stækki frek­ar á næstu vik­um.

Fjölg­un starfa í ljósi bágs at­vinnu­ástands

Til að mæta þeim hópi sem er án at­vinnu í sum­ar hef­ur Mos­fells­bær skipu­lagt tíma­bund­in átaks­störf með sam­bæri­leg­um hætti og boð­ið var upp á ár­un­um 2009-2015.

Þann­ig hef­ur ver­ið ákveð­ið að bjóða allt að 65 ein­stak­ling­um á aldr­in­um 16 og 17 ára fjöl­breytt störf. Líkt og árið 2009 verð­ur boð­ið upp á 140 klukku­stunda vinnu­tíma­bil fyr­ir þenn­an ald­urs­hóp.

Þessu til við­bót­ar verð­ur boð­ið upp á 20 störf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri sem eiga eng­an eða tak­mark­að­an rétt á at­vinnu­leys­is­bót­um. Þessi átaks­störf er í boði í sam­vinnu við Vinnu­mála­stofn­un og það átak sem sem rík­is­stjórn­in hef­ur boð­að í tengsl­um við að­gerð­ir vegna Covid-19. Þann­ig er gert ráð fyr­ir 10 störf­um fyr­ir 18-19 ára og 10 störf­um fyr­ir 20 ára og eldri. Vinnu­tíma­bil fyr­ir þenn­an ald­urs­hóp verð­ur tveir mán­uð­ir. Gert er ráð fyr­ir að kostn­að­ur Mos­fells­bæj­ar vegna þess­ara átaks­starfa í sum­ar nemi um 40 m.kr. og verð­ur gerð­ur sér­stak­ur við­auki við fjár­hags­áætlun vegna þessa.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar um til­hög­un um­sókna um þessi störf verða kynnt­ar á næstu dög­um.

Tengt efni

Netspjall

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00

Þjónustuver 525-6700

Opið virka daga
mán. – fim. 8:00-16:00
fös. 8:00-13:00