Í sumar býður Mosfellsbær upp á störf fyrir ungt fólk líkt og undanfarin ár.
„Við munum ráða um 30 manns í það sem við köllum hefðbundin sumarstörf eins og stöður sundlaugavarða í íþróttamiðstöðvunum og flokksstjóra í garðyrkjudeild, Vinnuskóla og Íþrótta- og tómstundaskóla,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Þessi störf eru að mestu leyti ætluð fólki sem er 20 ára eða eldra. Þar að auki munum við bjóða upp á sumarátaksstörf fyrir ungt fólk á aldrinum 17 til 20 ára. Þar gerum við ráð fyrir að bjóða allt að 100 manns vinnu til viðbótar. Þarna eru til dæmis störf í garðyrkjudeild, á leikskólum, afgreiðsla í íþróttamiðstöðvum auk fjölbreyttra starfa á vegum félagasamtaka. Við gerum ráð fyrir að samstarfi við Vinnumálastofnun um sumarstörf fyrir skólafólk eins og tvö síðustu sumur.“
Edda Davíðsdóttir tómstundafulltrúi og Sigríður Indriðadóttir mannauðsstjóri hafa yfirumsjón með ráðningum sumarstarfsfólks. Að sögn Sigríðar verða sumarstörfin auglýst á vef Mosfellsbæjar þann 14. mars. „Það verður einungis hægt að sækja um störfin rafrænt. Umsóknarfresturinn er til 28. mars og það er mjög mikilvægt að allir sæki um fyrir þann tíma. Þeir sem sækja um eftir það geta ekki búist við að fá vinnu.“
Hvenær má fólk búast við að fá svar um hvort það fái sumarvinnu? „Við stefnum á að svara öllum umsóknum þann 20. apríl. Ef okkur tekst ekki að verða við öllum umsóknum þá fer fólkið sjálfkrafa á biðlista og við látum svo vita um leið og starf losnar. Það er okkar reynsla að unga fólkið ræður sig í sumarstörf fram eftir vori. Það eykur líkurnar á að geta orðið við öllum umsóknum.“
Haraldur og Sigríður hvetja ungmenni 17 ára og eldri að kynna sér upplýsingar um sumarstörfin um leið og þau birtast á vef bæjarins þann 14. mars og sækja um áður en umsóknarfrestur rennur út 28. mars. Störfin verða einnig auglýst í Mosfellingi þann 15. mars.
Tengt efni
Sumarstörf hjá Mosfellsbæ 2024 - Umsóknarfrestur er til og með 13. mars
Mosfellsbær auglýsir sumarstörf fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ.
Sumarstörf hjá Mosfellsbæ 2024
Mosfellsbær auglýsir sumarstörf fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ.
Sumarstörf hjá Mosfellsbæ 2023 - Umsóknarfrestur til og með 13. mars
Mosfellsbær auglýsir sumarstörf fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ.