- Hundagerðið hefur verið opnað aftur á nýjum stað
- Ævintýragarðurinn verður með skert aðgengi hluta sumars
Miklar framkvæmdir verða nú í sumar í Ævintýragarðinum en unnið er að lagningu samgöngustígs í gegnum Ævintýragarðinn sem mun bæta aðgengi gangandi og hjólandi gesta. Stígurinn tengir núverandi stíg við Brúarland og yfir í Leirvogstungu. Samhliða framkvæmdum við stígagerðina sem er á vegum Vegagerðarinnar tók Mosfellsbær þá ákvörðun að nýta tækifæri og endurnýja fráveitulagnir frá Varmársvæðinu.
Hundagerðið hefur verið tekið niður á fyrri stað og verið sett upp aftur ofar í Ævintýragarðinum í samræmi við loftmynd sem fylgir þessari frétt.Þá verða í sumar framkvæmdir á aðalleiksvæði Ævintýragarðsins en þar er verið að ljúka við stígagerð og setja upp grillaðstöðu.
Vegna þessara framkvæmda verður núverandi samgöngustígur lokaður að og frá Varmársvæðinu yfir Varmá frá 1. – 15. júní 2021 og er það gert til að tryggja öryggi vegfarenda.
Gönguleiðir inn í Ævintýragarðinn verða opnar að norðan eða sunnanverðu um hjáleiðir eftir því sem aðstæður leyfa og einnig verður hjáleiðir framhjá garðinum meðfram Tunguvegi.
Það er óhjákvæmilegt að svona umfangsmiklar framkvæmdir valdi bæði óþægindum og truflunum en til framtíðar litið er samgöngustígurinn mikilvæg viðbót sem eykur aðgengi að svæðinu og bætir öryggi allra vegfarenda.
Mikilvægt er að gestir svæðisins og aðrir vegfarendur sýna aðgát á svæðinu á meðan framkvæmdum stendur.