Að loknum sveitarstjórnarkosningum 2022 hafa framboð Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar í Mosfellsbæ ákveðið að gera með sér samning um myndun meirihluta fyrir kjörtímabilið 2022 – 2026. Eftirfarandi málefnasamningur flokkanna er grundvallaður á stefnuskrám þeirra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022.
Það er markmið allra aðila að málefnasamningi þessum að hafa að leiðarljósi breiða sátt og samvinnu þvert á alla flokka í vinnu sinni fyrir Mosfellsbæ. Áhersla verður lögð á að allir fulltrúar í bæjarstjórn séu vel upplýstir um þau mál sem koma til afgreiðslu og að sjónarmið allra komi að borðinu áður en ákvörðun er tekin. Lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð verði viðhöfð í nefndarstarfi bæjarins og lýðheilsa, umhverfismál, nýsköpun og lýðræði í víðum skilningi verði ofin inn í allt nefndarstarf.