Að loknum sveitarstjórnarkosningum 2022 hafa framboð Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar í Mosfellsbæ ákveðið að gera með sér samning um myndun meirihluta fyrir kjörtímabilið 2022-2026. Eftirfarandi málefnasamningur flokkanna er grundvallaður á stefnuskrám þeirra fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2022.
Það er markmið allra aðila að málefnasamningi þessum að hafa að leiðarljósi breiða sátt og samvinnu þvert á alla flokka í vinnu sinni fyrir Mosfellsbæ. Áhersla verður lögð á að allir fulltrúar í bæjarstjórn séu vel upplýstir um þau mál sem koma til afgreiðslu og að sjónarmið allra komi að borðinu áður en ákvörðun er tekin. Lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð verði viðhöfð í nefndarstarfi bæjarins og lýðheilsa, umhverfismál, nýsköpun og lýðræði í víðum skilningi verði ofin inn í allt nefndarstarf.
Ráðið verður í stöðu bæjarstjóra Mosfellsbæjar.
Framtíðarsýn
Í öllu starfi okkar næstu fjögur árin munum við vinna að því móta framtíðarsýn fyrir bæjarfélagið í heild. Við viljum sjá alla framtíðaruppbyggingu í Mosfellsbæ taka mið af einstakri tengingu bæjarins við náttúruna og þar sem mannlífið og velsæld allra bæjarbúa er í fyrsta sæti. Mannréttindi, lýðræði og gagnsæi er leiðarstef í allri þjónustu Mosfellsbæjar við bæjarbúa. Við viljum sjá alla skóla Mosfellsbæjar í fremstu röð þar sem vellíðan allra barna og starfsfólks er tryggð.
Við viljum sjá heildstæða uppbyggingu íþróttasvæða í bæjarfélaginu þar sem horft er til framtíðar með fólksfjölgun í huga og aðgengi að fjölbreyttu starfi.
Við viljum uppbyggingu fjölbreyttra íbúðakosta fyrir alla íbúa en sér í lagi erum við meðvituð um fyrirsjáanlega fjölgun eldra fólks á komandi árum sem við viljum tryggja að geti átt áhyggjulaust ævikvöld. Með sama hætti viljum við tryggja að íbúar sem þurfa stuðning, svo sem fólk með fatlanir, eigi þess kost að búa í Mosfellsbæ og fá þjónustu sem gerir þeim kleift að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum.
Við viljum sjá Mosfellsbæ sem styður við menningarstarf og hefur byggt upp framúrskarandi aðstöðu fyrir fjölbreytt lista- og menningarlíf.
Þetta er okkar sýn og von fyrir fallega bæinn okkar. Í vinnu okkar munum við leggja okkur fram um að gera þessa sýn að veruleika að svo miklu leyti sem unnt er á fjórum árum.
Framsækin stjórnsýsla og virkt lýðræði
Stjórnsýsla Mosfellsbæjar á að vera stafræn og í fremstu röð. Til að ná því takmarki þarf að efla stafræna þróun og nýsköpun. Lögð verður áhersla á gagnsæ vinnubrögð og sett verða mælanleg markmið til að efla faglegan grunn fyrir ákvarðanatöku. Stefnt er að innleiðingu stafrænna lausna til að auka skilvirkni í svörun erinda og samskiptum bæjarins við íbúa. Stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda.
Lögð verður áhersla á skilvirkt nefndarstarf þar sem hugað verður að lýðræðismálum, lýðheilsu, umhverfismálum og nýsköpun í öllum málaflokkum. Jákvæð og uppbyggileg samskipti verða höfð að leiðarljósi í allri okkar vinnu. Góð samskipti við bæjarbúa, félagasamtök, fyrirtæki og aðra hagaðila eru grundvöllur að farsælli ákvarðanatöku. Aðkoma bæjarbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku verður aukin með fjölbreyttum hætti. Þannig verður lögð áhersla á virkt íbúalýðræði og samskipti við hagaðila.
Nefndaskipulag verður tekið til endurskoðunar. Heiti Fjölskyldunefndar verður breytt í Velferðarnefnd til að endurspegla betur umfangsmikið hlutverk hennar. Mikilvægt er að fagnefndir endurspegli þau verkefni sem eru umfangsmikil og styðji við þær áherslur sem unnið er eftir. Við munum því gera starfsáætlun fyrir hverja nefnd fyrir sig þar sem helstu verkefni og áherslur eru skilgreindar. Verkefnum Lýðræðis- og mannréttindanefndar verður skipt upp á milli Velferðarnefndar, sem tekur við mannréttindamálum en ábyrgðin á lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar mun flytjast í Menningar- og lýðræðisnefnd sem kemur í stað Menningar- og nýsköpunarnefndar.
Lögð verður áhersla á að gefa atvinnumálum og nýsköpun aukið vægi í nefndarstarfi bæjarins á kjörtímabilinu og mun því nefndin sem í dag heitir Lýðræðis- og mannréttindanefnd verða Atvinnu- og nýsköpunarnefnd.
Lýðræðismálin og lýðræðisstefna bæjarins verða rauður þráður hjá öllum fagnefndum bæjarins.
Fjármál
Lögð verður áhersla á ábyrgan rekstur og gæði þjónustunnar.
Á meðan Mosfellsbær er stækkandi sveitarfélag og ákall er eftir meiri og faglegri þjónustu við alla aldurshópa er mikilvægt að tekjustofnar séu traustir. Álagningarprósentur fasteignagjalda verða lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats eins og áður.
Umbótum á rekstri verður fylgt eftir með skilvirku fjárhagslegu eftirliti með rekstri stofnana, áætlanagerð og innkaupum. Sérstök áhersla verður lögð á að sjálfbærni í rekstri bæjarins.
Velferð í forgrunni
Öll velferðarþjónusta skal byggja á mannréttindum, jafnrétti og virðingu. Sett verða skýr markmið í velferðarmálum sem hægt er að vakta með mælingum, bæði fjárhagslegum og velferðar tengdum.
Lögð verður áhersla á að innleiða að fullu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að Mosfellsbær fái viðurkenningu sem barnvænt samfélag á kjörtímabilinu. Lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna skapa gríðarleg tækifæri að bæta og efla umgjörð og þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra og lögð verður áhersla á innleiðingu þeirra í stjórnkerfi bæjarins. Snemmtæk íhlutun í málefnum barna verður meginstef í þjónustu við þau.
Farið verður eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þannig byggjum við upp samfélag þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku án aðgreiningar, virðingu fyrir fjölbreytileika og jöfn tækifæri fyrir alla.
Ráðinn verður aðgengisfulltrúi til sveitarfélagsins. Notendaráð fatlaðs fólks verður virkjað til að tryggja enn betur hagsmuni fatlaðs fólks í Mosfellsbæ og gæta að framgangi mála sem varða þau.
Unnin verður aðgerðaráætlun varðandi uppbyggingu sértækra búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Mikilvægt er að ná fyrirsjáanleika í málaflokknum svo tryggt sé að viðunandi húsnæði sé til staðar til framtíðar.
Unnið verði markvisst í að bæta samskipti við ríkisvaldið þegar kemur að málefnum eldra fólks og viðmið um aldursvænt samfélag innleidd í starfsemi Mosfellsbæjar. Unnið verði að því að bæta stoðþjónustu bæjarins sem og að samþætta betur heimaþjónustu og heilbrigðisþjónustu.
Öldungaráð verður virkjað enn betur til að gera því kleift að sinna ráðgjafar- og eftirlitshlutverki sínu.
Í Mosfellsbæ á fólk að geta búið sér heimili sem hentar þörfum þeirra á hverju æviskeiði. Lykillinn að góðu samfélagi er samvera og samskipti sem næst betur með blandaðri byggð og fjölbreyttum búsetukostum.
Heilsa allra íbúa er mikilvæg í hverju samfélagi og forvarnargildi heilsueflandi starfs er ótvírætt. Við munum leggja áherslu á áframhaldandi uppbyggingu faglegs starfs sem stuðlar að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu eldri Mosfellinga.
Metnaðarfullt starf í fræðslumálum
Mosfellsbær er mikill barnabær og fræðslumálin því umfangsmikið og mikilvægt verkefni. Skólar Mosfellsbæjar eiga að vera í fremstu röð og leggja áherslu á góða menntun, lýðræðislega þátttöku, mannréttindi og vellíðan barna. Skólarnir okkar eru fyrir alla og við viljum styrkja þá með því
að efla snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Það þarf meðal annars að gera með því að endurskipuleggja stoðþjónustuna sem þarf að virka fyrir börn og þá starfsemi sem hverfist í kringum þau.
Þjónusta við börn á að hefjast strax að loknu fæðingarorlofi og skal unnið að því að bjóða upp á fjölbreytta kosti þegar kemur að dagvistun ungra barna.
Mikilvægt er að tryggja öllum börnum aðgengi að heilsusamlegu skólahúsnæði. Sett verður skýr stefna í uppbyggingu skóla í samræmi við íbúaþróun og heildstæð viðhaldsáætlun á núverandi skólahúsnæði unnin á grunni þarfagreiningar og ástandsskoðunnar.
Markvisst verður unnið að því að skólasamfélagið í Mosfellsbæ, bæði leik- og grunnskólar, séu eftirsóknarverðir. Með því að leggja áherslu á nýsköpun, starfsþróun og fjölbreytni í skólastarfi viljum við efla kennara og starfsfólk. Jafnframt verður sjálfstæði skólastjórnenda eflt.
Mosfellsbær mun áfram byggja og reka hverfisskóla fyrir öll hverfi bæjarins en styðjum jafnframt fjölbreytileika í rekstrarformi ef sjálfstæðir skólar vilja koma í bæinn.
Sett verða mælanleg markmið til að fylgjast með því að líðan barna í skólum Mosfellsbæjar sé góð.
Við leggjum áherslu á að horft sé til framtíðar og skólaumhverfið lagað að kröfum samfélagsins til dæmis þegar kemur að hagnýtingu upplýsingatækni.
Við viljum skoða starfs- og rekstrarumhverfi Listaskólans með það að markmiði að gera fleiri börnum kleift að stunda tónlistarnám.
Íþróttir og tómstundir fyrir alla
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og á að vera leiðandi á landsvísu þegar kemur að framboði og aðstöðu í félags-, íþrótta- og tómstundamálum. Markmið okkar er að íþróttamannvirki Mosfellsbæjar svari þörfum þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram. Sérstaklega
þarf að taka tillit til fjölgunar íbúa og þeirrar fjölbreytni sem fyrirfinnst í mannlífi bæjarins. Fólk á öllum aldri með mismunandi færni geti nýtt sér þá aðstöðu og þjónustu sem íþróttamiðstöðvar bjóða upp á.
Við viljum stuðla að samráðsvettvangi íþrótta- og tómstundafélaga í Mosfellsbæ.
Við munum vinna heildstæða langtíma uppbyggingar- og viðhaldsáætlun fyrir Varmársvæðið svo það standist nútímakröfur. Hluti af þessari vinnu er að taka til skoðunar áætlanir um þjónustubyggingu að Varmá. Opnunartími sundlauga verður lengdur.
Sérstaklega verður hugað að stöðu barna frá efnaminni heimilum hvað varðar stuðning til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.
Starfsemi Bólsins í heild verður endurskoðuð með það að markmiði að efla starfið. Stefnt verður að því að félagsmiðstöðin verði opin allt árið enda forvarnargildi starfsins ótvírætt.
Starfsemi Mosans og Úlfsins verður efld og unnin verður langtímaáætlun í uppbyggingu á félags- og tómstundastarfi fyrir ungt fólk.
Unnið verður að því að tengja betur saman sumar- og vetrarfrístund og bæta þar með þjónustu við yngstu börnin í grunnskóla.
Aðgengi íbúa að náttúrunni og fellunum í kringum bæinn verður aukið með bættu viðhaldi og lagningu nýrra stíga hvort sem er fyrir göngufólk og hlaupara, hjólreiðafólk eða hestamenn.
Skipulag til framtíðar
Á kjörtímabilinu verður í undirbúningi stærsta uppbyggingarverkefni sem sveitarfélagið hefur komið að. Lögð verður áhersla á lýðræðissjónarmið í þeirri vegferð, upplýsingagjöf og vönduð vinnubrögð. Uppbygging á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, fyrir alla tekjuhópa, er mjög aðkallandi verkefni og Mosfellsbær ber ábyrgð í þeim efnum gagnvart núverandi íbúum og íbúum framtíðarinnar.
Á kjörtímabilinu verður lokið við endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar og skal skipulagið skapa rými fyrir fjölbreytt búsetuform, atvinnu, menningarlíf og heilsueflingu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu sé vinna hafin við forgangsröðun og gerð rammaskipulags mögulegra uppbyggingasvæða.
Ný hverfi verði skipulögð með sjálfbærni í huga þar sem hugað verði að þjónustu, samgöngum og lýðheilsu sem og samheldni milli umhverfis og skipulags. Við stöndum að baki Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og styðjum uppbyggingu hágæða almenningssamgangna innan svæðisins ásamt áframhaldandi uppbyggingu samgöngustíga.
Við styðjum lagningu Sundabrautar og teljum hana vera mikilvæga til að létta á umferðarþunga í gegnum Mosfellsbæ.
Með breyttum áherslum nútímans eins og fjarvinnu og
loftslagssjónarmiðum er mikilvægt að skipulag stuðli að öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi í Mosfellsbæ og til staðar sé miðbæjarskipulag sem laðar að sér verslun og þjónustu sem leggur grunn að kraftmiklu mannlífi. Á kjörtímabilinu verður miðbæjarskipulagið endurskoðað með tilliti til þessa.
Umhverfis- og loftlagsmál
Mosfellsbær er mikil náttúruperla og útivistarbær og eitt fallegasta bæjarstæði á landinu. Hagsmunir bæði bæjarbúa og náttúrunnar eru að umhverfismál séu í forgangi í öllum ákvörðunum sem teknar eru enda snerta þau allar hliðar reksturs sveitarfélaga. Það er markmið okkar að Mosfellsbær verði leiðandi sveitarfélag í umhverfismálum á kjörtímabilinu.
Loftslagsmál eru stærstu úrlausnarefni samtímans og framtíðarinnar. Innleiða þarf metnaðarfulla aðgerðaráætlun á grundvelli loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins og umhverfisstefnu Mosfellsbæjar með sérstakri áherslu á lýðheilsu, nýsköpun, umhverfismál og sjálfbærni.
Á kjörtímabilinu verður markvisst unnið að innleiðingu
hringrásarhagkerfisins í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að bærinn nái kolefnishlutleysi og sjálfbærni í rekstri.
Átak verður gert í fræðslu til íbúa til að efla sjálfbærni- og umhverfisvitund. Grenndarstöðvum verður fjölgað og íbúum gert auðveldara að flokka úrgang. Aukin áhersla verður lögð á viðhald og hreinsun á sameiginlegum opnum svæðum, götum og göngustígum.
Við teljum að meta þurfi kosti þess að í sveitarfélaginu verði loftslagsskógur sem gegnir hlutverki í kolefnisbindingu Íslands og getur jafnframt orðið útivistarsvæðum bæjarins til mikils sóma.
Menningarmál
Mosfellsbær á inni mikil tækifæri þegar kemur að uppbyggingu menningar. Bærinn býr að mikilli sögu og í gegnum tíðina hafa Mosfellingar skarað fram úr í mörgum listgreinum.
Á kjörtímabilinu verður unnin þarfagreining á aðstöðumálum fyrir menningarstarf í bænum og á þeim grunni mótuð framtíðarsýn í málaflokknum í samstarfi við hagaðila.
Við viljum efla menningar- og listastarf í bænum. Sérstök áhersla verður lögð á lýðheilsu, nýsköpun, umhverfismál og sjálfbærni í stuðningi sveitarfélagsins við menningar- og listastarf.
Notkun og rekstur Hlégarðs verður endurskoðaður og gerð áætlun um nýtingu hússins og svæðisins fyrir bæjarbúa.
Aðstöðumál Leikfélags Mosfellssveitar verða skoðuð sérstaklega með það að leiðarljósi að eyða óvissu félagsins í húsnæðismálum.
Mosfellsbær býr að sterkri og fjölbreyttri atvinnu-, byggða- og menningarsögu. Þá sögu viljum við vinna í að gera sýnilega og styrkja þar með bæjarbraginn. Tekinn verður upp þráðurinn við uppsetningu fræðsluskilta þar sem örnefnum úr sögu sveitarinnar er haldið til haga.
Bókasafn Mosfellsbæjar gegnir mikilvægu og fjölþættu
menningarhlutverki hér í bæ sem verður styrkt enn frekar á kjörtímabilinu.
Atvinna og nýsköpun
Öflugt atvinnulíf er ein af grunnstoðum hvers samfélags. Í Mosfellsbæ eru öflug fyrirtæki en við teljum að mikið svigrúm sé til þess að laða enn fleiri og fjölbreyttari fyrirtæki í bæinn og með því eflum við atvinnulífið, öllum íbúum til hagsbóta.
Við munum móta atvinnustefnu Mosfellsbæjar til framtíðar þar sem áhersla verður lögð á lýðheilsu, nýsköpun, umhverfismál og sjálfbærni. Ný atvinnu- og nýsköpunarnefnd mun leiða þá vinnu.
Við viljum að Mosfellsbær verði eftirsóttur bær til uppbyggingar atvinnu og til þess þarf að tryggja fjölbreytt framboð atvinnuhúsnæðis og atvinnusvæða. Hugað verður sérstaklega að þessum þáttum í allri skipulagsvinnu.
Í sama tilgangi verður þjónusta bæjarins við fyrirtæki sem þegar starfa eða vilja hefja starfsemi í bænum endurmetin og leitast við að bæta og einfalda ferla svo auðveldara verði að hefja eða útvíkka atvinnustarfsemi í bænum.