Linda Rún Pétursdóttir, hestaíþróttakona og Kristján Þór Einarsson, golfíþróttamaður voru sæmd titlunum íþróttakona og íþróttakarl Mosfellsbæjar 2009.
Alls voru þrjár konur frá þremur félögum tilnefndar. Ein frá Aftureldingu, ein frá Golfklúbbnum Kili og ein frá Hestamannafélaginu Herði og fimm karlar úr fimm félögum voru tilnefndir, úr Aftureldingu, Kili, Herði, Mótómos og golfklúbbnum Bakkakoti. Um þessa íþróttamenn kusu fulltrúar og varamenn í íþrótta-og tómstundanefnd eftir upplýsingum sem berast frá félögunum. Þar vegur mest afrek, ástundun, framkoma og reglusemi íþróttamannsins.
Fjöldi annarra íþróttamanna var heiðraður. Athygli vakti að alls fengu sjö stúlkur í Aftureldingu viðurkenningu fyrir að hafa verið valdar í unglingalandslið í knattspyrnu, tvær í U19 og fimm í U17.
Í umsögn um Lindu Rún Pétursdóttir Hestaíþróttakona úr Hestamannafélaginu Herði og íþróttakonu Mosfellsbæjar 2009 segir:
Linda er frábær íþróttamaður sem hefur keppt fyrir Hörð frá barnsaldri og verið í forystu síns flokks frá upphafi. Hún er félagslynd og hefur verið í fremstu línu á flestum þeim hestasýningum sem æskulýðsdeild Harðar hefur tekið þátt í, svo sem hinn árlegi viðburður í reiðhöllinni í Víðidal „Æskan og hesturinn“. Afreksmannasjóður Harðar og Mosfellsbæjar styrkti hana til ferðar á heimsmeistaramót Íslenska hestsins sem haldið var í Sviss í sumar, en þar vann hún það frábæra afrek að verða heimsmeistari í tölti ungmenna. Linda keppti á hinum ýmsu mótum hérlendis. Var í 2 sæti Reykjavíkurmóti í Ístöltkeppni ungmenna, Var í 1 sæti tölti ungmenna og 1 sæti í fjórgangi innanfélagsmóti Harðar. Varð í 1 sæti fjórgangi ungmenna og í 1 sæti töltkeppni á úrtökumóti fyrir Heimsleika-íslenskahestsins í Sviss þar sem hún varð heimsmeistari eins áður sagði. Keppti fyrir Íslandshönd á Norðurlandamóti í Svíþjóð og lenti í 4. Sæti í fjórgangi. Valin í úrvalshóp ungmenna hjá Landsambandi hestamanna 2009. Var valin Efnilegasti knapi ársins yfir landið 2009.
Auk Lindu voru tilnefndar: Thelma Rut Frímansdóttir, karatekona úr Aftureldingu og Heiða Guðnadóttir, golfíþróttakona úr golfklúbbnum Kili.
Í umsögn um Kristján Þór Einarsson, golfíþróttamann úr golfklúbbnum Kili og íþróttakarl Mosfellsbæjar 2009 segir:
Kristján er í dag einn af betri kylfingum landsins og einn yngsti kylfingur landsins til að verða Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni. Kristján er mikill keppnismaður og sýndi það á Íslandsmótinu í holukeppni í sumar þar sem hann landaði Íslandsmeistaratitlinum eftir marga erfiða leiki. Kristján hefur sýnt jafnan og góðan stíganda í íþróttinni seinustu ár og eru bundnar miklar vonir við hann í framtíðinni. Helsti árangur Kristjáns í sumar var að vinna Íslandsmótið í holukeppni sem haldið var hjá Golfklúbbi Kiðjabergs. Kristján var einnig í bronsliði Golfklúbbsins Kjalar í Sveitakeppni Golfsambandsins og spilaði þar stóran þátt. Kristján fór með karlalandsliðinu til Wales þar sem hann keppti í Evrópumóti karlalandsliða. Þar endaði Ísland 12. sæti. Hann endaði í 6. sæti á Stigalista GSÍ mótaraðarinnar þrátt fyrir að missa af einu móti vegna landsliðsverkefna. Kristján lauk stúdentsprófi á árinu og hefur fengið inngöngu í háskóla í Bandaríkjunum Nicholl‘s State University þar sem hann mun stunda golf samhliða námi.
Auk hans voru tilnefndir: Einar Haukur Óskarsson golfíþróttamaður úr Golfklúbbnum Bakkakoti, Kristján Helgi Carrasco, karatemaður úr Aftureldingu, Reynir Örn Pálmasson hestaíþróttamaður úr Hestamannafélaginu Herði og Viktor Guðbergsson, aksturíþróttamaður úr aksturíþróttafélaginu Motómos.
Mosfellsbær óskar þessu frækna íþróttafólki til hamingju með titilinn og tilnefningarnar.
Tengt efni
Tilnefningar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024
Hægt er að senda inn tilnefningar til 19. nóvember 2024.
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2023 heiðrað við hátíðlega athöfn í Hlégarði fimmtudaginn 11. janúar
Tilnefningar voru 21 og eins og áður gafst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa úr hópi tilnefndra íþróttafólk ársins 2023. Á sama tíma var þjálfari, lið og sjálfboðaliði ársins heiðruð.
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2023
Átta konur og ellefu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2023.