Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.
Eins og áður gefst bæjarbúum kostur á, ásamt íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar, að kjósa íþróttafólk ársins.
Netkosning stendur yfir frá 29. nóvember til og með 12. desember 2024.
Til að kjósa þarf að skrá sig inn á Mínar síður Mosfellsbæjar með rafrænum skilríkjum og velja flipann „Kosningar“. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti í kvenna- og karlaflokki. Kosning er ekki gild nema valið sé í öll þrjú sætin.
Tilkynnt verður um valið þann 9. janúar.
Kjósa íþróttafólk Mosfellsbæjar:
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2024
Amalía er 27 ára. Hún varð Íslandsmeistari í 64kg flokki í ólympískum lyftingum á árinu. Hún er í fremsta flokki íslenskra lyftingakvenna og með fast sæti í landsliðinu. Hún hefur ávallt keppt fyrir Mosfellsbæ og er frábær fyrirmynd. Amalía hefur tryggt sér þáttökurétt á Heimsmeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Barein. Amalía hefur sýnt ótrúlega fórnfýsi og tryggð við ólympískar lyftingar og Mosfellsbæ síðasta áratug.
Aþena Rán er 17 ára. Hún hefur æft Taekwondo hjá Aftureldingu síðan hún var 7 ára. Árið 2024 vann Aþena bikarmót bæði í einstaklings og para poomsae. Hún er einnig Íslandsmeistari í einstaklings, para og hópa poomsae. Þá var hún valin kona mótsins bæði á Íslandsmótinu og bikarmótinu. Hún er í landsliði Íslands og tók þátt í bæði Danish Open og Austria Open. Hún komst í undanúrslit á báðum mótunum. Aþena Rán er mjög samviskusöm og dugleg við æfingar. Hún er góð fyrirmynd bæði innan og utan vallar.
Erna Sóley er 24 ára. Hún skaraði fram úr á árinu, setti Íslandsmet í kúluvarpi kvenna (17,91) og vann sér þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu innanhúss, Evrópumeistaramótinu utanhúss og sjálfum Ólympíuleikunum í París. Þar varð hún fyrst íslenskra kvenna til að taka þátt í kúluvarpi á Ólympíuleikum. Aðeins fjórir aðrir Íslendingar unnu sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í ár.
Eva er 17 ára. Hún varð í 2. sæti í fullorðins flokki á stigamótaröð GSÍ, endaði jöfn í 4. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og varð í 3. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni. Í Íslandsmóti golfklúbba tryggði hún GM sigur með sigri í bráðabana á móti atvinnukylfing. Hún keppti fyrir hönd Íslands á EM og HM landsliða 18 ára og yngri með góðum árangri. Einnig var hún Íslandsmeistari U18 í holukeppni og önnur á stigalista GSÍ í unglingaflokki.
Guðrún Elísabet er 24 ára. Hún átti mjög gott tímabil með knattspyrnuliði Vals sem varð bikarmeistari á árinu ásamt því að lenda í öðru sæti á Íslandsmótinu eftir harða baráttu við Breiðablik. Guðrún Elísabet skoraði meðal annað mark Vals í bikarúrslitaleiknum og tók þátt í báðum leikjum Vals í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.
Hafdís Pála er 29 ára. Hún átti mjög gott keiluár, hún varð Íslandsmeistari einstaklinga og sömuleiðis Íslands- og bikarmeistari með liði sínu KFR-Valkyrjum. Nú í október varð hún Íslandsmeistari para með Hafþóri Harðarsyni sem einnig er úr Mosfellsbæ. Hafdís Pála er góð fyrirmynd ungra keilara.
Halldóra Huld er 36 ára. Hún er ein fremsta utanvegarhlaupakona landsins auk þess sem hún hefur náð góðum árangri í styttri hlaupum innanhúss. Hún byrjaði árið á því að slá Íslandsmet í sínum aldursflokki í 800m, 1500m, 3000m og 5000m hlaupum innanhús. Hún tók þátt í EM í utanvegahlaupum, sigraði Mt.Esja Ultra hálfmaraþonið og Snæfellsjökulshlaupið. Hún tók þátt í CCC by UTMB sem er 101 km hlaup með 6100m hækkun og náði góðum árangri þar.
Sól er 18 ára. Hún varð á árinu 2024 Íslandsmeistari í fjallabruni, en hún keppir fyrir Hjólreiðafélag Reykjavíkur. Þetta var hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill. Með þessum árangri hefur Sól ekki aðeins lyft grettistaki fyrir sjálfa sig heldur einnig fyrir íþróttafélagið sitt og Mosfellsbæ. Hún er fyrirmynd fyrir aðra fjallabrunara í bænum, sérstaklega ungra stúlkna, og hefur með frammistöðu sinni stuðlað að aukinni athygli á fjallabruni sem íþróttagrein.
Valdís Unnur er 21 árs. Hún hefur stundað blak frá barnsaldri hjá blakdeild Aftureldingar. Árið 2024 varð Valdís Unnur bikarmeistari og fékk silfur á Íslandsmótinu með Aftureldingu ásamt því að vera valin í draumalið Íslandsmótsins í vor, líkt og 3 undanfarin ár. Valdís var einn af lykilleikmönnum landsliðsins þegar liðið tók þátt í Silver League Evrópukeppni í fyrsta skipti í ár. Valdís Unnur er mjög metnaðarfullur leikmaður og mikil fyrirmynd yngri leikmanna jafnt sem leikmaður og sem sjálfboðaliði.
Þórey Rósa er 35 ára. Hún leikur með Fram í Olísdeild kvenna í handbolta. Þórey Rósa hefur verið búsett í Mosfellsbæ síðan 2016, eftir að hún flutti heim til Íslands eftir 8 ára veru erlendis í atvinnumennsku. Þórey hefur spilað 140 leiki fyrir Ísland og er í liðinu sem tekur þátt í úrslitakeppni EM í lok árs 2024. Þórey Rósa er lykilmaður í liði Íslands og ein af fyrirliðum liðsins.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2024
Anton Ari er þrítugur að aldri. Hann er markvörður Breiðabliks í knattspyrnu og varð Íslandsmeistari með þeim í ár. Þetta var fjórði Íslandsmeistaratititill hans. Anton stóð í marki Breiðabliks í öllum 27 leikjunum sem liðið lék í mótinu og var lykilmaður í liðinu, enda hélt hann hreinu í níu leikjum, oftar en nokkur annar markvörður í deildinni. Hann var valinn í úrvalslið Bestu deildarinnar af Fótbolti.net. Anton lék einnig með Breiðabliki í Sambandsdeild Evrópu í ár.
Benedikt er 21 árs nemi í HR. Benedikt hefur verið sigursæll á keppnisbrautinni í yngri flokkunum og hefur hann unnið alla stærstu titla sem keppt er um í hestamennskunni. Hann er ríkjandi tvöfaldur heimsmeistari og vann marga sigra á líðandi ári. Hann hefur nú lokið keppni í yngri flokkum og tekur þátt í fullorðins flokki á næsta ári. Hann var nýlega valinn í A landslið Íslands og fyrir liggur þátttaka hans á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í ágúst 2025.
Guðjón er 16 ára. Lykilhlutverk hans í blönduðu landsliði Íslands í unglingaflokki í fimleikum var óumdeilt, en liðið sigraði Evrópumótið 2024 í Bakú. Árangur Guðjóns undirstrikar hæfileika og yfirburðar getu hans innan fimleikahreyfingarinnar. Mosfellsbær á í fyrsta skipti Evrópumeistara sem æfir fyrir félag bæjarins. Guðjón hefur í mörg ár verið ómissandi hluti af drengjaliðum deildarinnar sem hafa unnið til fjölda Íslands- og Bikarmeistaratitla, hann hefur ekki bara veitt leiðsögn heldur einnig innblástur fyrir yngri iðkendur.
Hafþór er 38 ára. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með liði sínu ÍR-PLS á árinu 2024 og Íslandsmeistari para með Hafdísi Pálu Jónasdóttir sem einnig er úr Mosfellsbæ. Hafþór er góð fyrirmynd ungra keilara.
Helgi Kristberg er 15 ára. Hann varð Íslandsmeistari í réttstöðulyftu í 93kg þegar hann lyfti 230 kg. Helgi tók þátt, yngstur alla, þátt í Norðurlandamótinu í kraftlyftingum í september og lyfti þar 180kg í hnébeygju, 122 kg í bekkpressu og 240 kg í réttstöðulyftu. Hann var valinn í landslið Íslands á árinu. Helgi er gríðarlega samviskusamur og æfir nánast á hverjum degi, 2 til 3 tíma í senn. Þar fyrir utan er hann ávallt tilbúinn að aðstoða við mót og annað.
Hilmir Berg er 24 ára. Hann hefur verið lykilmaður í uppbyggingu karlaliðs blakdeildarinnar og var með í að skrá nýjan kafla í sögu félagsins þegar liðið lék til úrslita á Íslandsmótinu í ár. Hilmir lék með landsliðinu í Silver League Evrópukeppninni en það er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í því móti. Hilmir er einstaklega tryggur félagsmaður og er persónuleiki hans og tryggð gagnvart félaginu sínu til mikillar fyrirmyndar. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, bæði sem leikmaður og sem sjálfboðalið fyrir liðið sitt.
Kristján Þór er 36 ára. Hann átti frábært golfsumar þar sem hann endaði í 5. sæti á stigalista GSÍ í karlaflokki. Sigur í meistaramóti GM á 17 höggum undir pari var toppur sumarsins og bætti hann mótsmet klúbbsins um 6 högg. Einnig endaði Kristján í 3. sæti í Íslandsmótinu í holukeppni á Akranesi. Í Íslandsmótinu í höggleik endaði Kristján jafn í 9. sæti, 8. sæti í Hvaleyrarbikarnum og jafn í 11. sæti í Korpubikarnum. Var hann í kjölfarið valinn í karlalið Íslands fyrir EM liða.
Skarphéðinn er 20 ára. Hann hóf að æfa judo hjá Judofélagi Reykjavíkur ellefu ára gamall og er nú níu árum síðar orðin einn besti og öflugasti judomaður landsins. Hann náði góðum árangri á árinu, varð Íslandsmeistari bæði í -90 kg flokki karla og opnum flokki karla, var með silfur á Norðurlandameistaramótinu í Svíþjóð bæði í karlaflokki og U21árs flokki karla og á alþjóðlegu móti í Danmörku, Copenhagen Open vann hann einnig til silfurverðlauna.
Wiktor er 22 ára. Hann er uppalinn hjá Aftureldingu. Á árinu 2024 fékk hann silfur á Norðurlandamóti í bardaga í Taekwondo. Þá er hann Íslandsmeistari í bardaga og var valin maður Íslandsmótsins. Hann vann sinn flokk á öllum bikarmótum á bikarmótaröðinni 2023-2024. Wiktor er mjög samviskusamur og duglegur við æfingar. Hann er góð fyrirmynd bæði innan og utan vallar.
Þorsteinn Leó er 22 ára. Hann hefur verið einn efnilegasti handboltamaður Íslands undanfarin ár og er nú orðinn einn sá allra besti sem við eigum. Hann var kjölfesta í liði Aftureldingar sem spilaði til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á árinu 2024. Eftir tímabilið í vor gerðist hann atvinnumaður með Porto í Portúgal og hefur hann í nýlegum landsleikjum sannað að hann gæti skipt sköpum í vegferð landsliðsins á næsta stórmóti.
Tengt efni
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 heiðrað við hátíðlega athöfn í Hlégarði fimmtudaginn 9. janúar
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024 - Hægt að kjósa til og með 12. desember
Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.
Tilnefningar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024
Hægt er að senda inn tilnefningar til 19. nóvember 2024.