Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar fór fram við hátíðlega athöfn á veitingastaðnum Blik fimmtudaginn 6. janúar 2021.
Íþróttakona Mosfellsbæjar 2021 var kjörin: Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona.
Árið 2021 var gott ár fyrir Thelmu en hún var yfirburðaleikmaður á vellinum á árinu. Thelma varð Íslandsmeistari í blaki með Aftureldingu. Á uppskeruhátíð Blaksambands Íslands fyrir leiktímabilið 2020-2021 var Thelma valin stigahæsti leikmaðurinn í sókn, stigahæsti leikmaðurinn í uppgjöf og stigahæsti leikmaðurinn samtals. Hún var einnig valin besti Díó-inn á leiktímabilinu og í draumaliðið auk þess sem hún var valin besti leikmaður leiktímabilsins. Thelma er einn af máttarstólpum íslenska landsliðsins í blaki og er í A-landsliði Íslands.
Íþróttakarl Mosfellsbæjar 2021 var kjörinn: Guðni Valur Guðnason kringlukastari.
Guðni Valur var valinn frjálsíþróttakarl Frjálsíþróttasambands Íslands 2021. Hann situr í 17. sæti á Evrópulistanum og er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins. Guðni byrjaði tímabilið á glæsilegri bætingu í kúluvarpi á Reykjavík International Games með kast upp á 18,81 m. Hann varð Íslandsmeistari í kúluvarpi innanhúss með kast upp á 18,40 m. Guðni vann til silfurverðlauna í kringlukasti á Evrópska bikarkastmótinu í Split með kasti upp á 63,66 m. Guðni keppti í kringlukasti á Ólympíuleikunum sem fram fóru í Tokyo í fyrra. Hann náði þriðja sæti í kringlukasti á Göteborgs Fridrott Grand Prix á eftir gull- og silfurverðlaunahöfunum frá Ólympíuleikunum með kasti upp á 64,92 m.
Vegna Covid-19 var athöfnin með óhefðbundnu sniði vegna fjöldatakmarkana, sóttvarnareglna og þá þurfti að gæta að fjarlægðarmörkum. Athöfninni var streymt beint á Youtube en þetta var í 30. skipti sem við heiðrum okkar besta og efnilegasta íþróttafólk í Mosfellsbæ. Alls voru 15 konur og 16 karlar tilnefnd og hafa tilnefningar aldrei verið fleiri.
Eins og undanfarin ár mun Mosfellsbær heiðra alla þá sem voru tilnefndir með viðurkenningum og verða þær afhentar föstudaginn 7. janúar milli kl. 17:00 – 18:00 í afgreiðslu Íþróttamiðstöðvarinnar Lágafell.
Mosfellsbær óskar þeim Guðna Val og Thelmu Dögg innilega til hamingju með kjörið.
Tengt efni
Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 heiðrað við hátíðlega athöfn í Hlégarði fimmtudaginn 9. janúar
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024 - Hægt að kjósa til og með 12. desember
Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.
Kjör íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024
Tíu konur og tíu karlar hafa verið tilnefnd af íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar til íþróttafólks Mosfellsbæjar 2024.