Á sérstakri hátíðardagskrá í lok bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var hljómsveitin Gildran útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2023.
Menningar- og lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Hrafnhildur Gísladóttir formaður nefndarinnar hljómsveitinni Gildrunni verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni. Sveitin er skipuð þeim Þórhalli Árnasyni, Karli Tómassyni, Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni.
Hljómsveitin Gildran var stofnuð 1985 í Mosfellsbæ og samanstendur að stórum hluta af einstaklingum sem hófu sinn tónlistarferil sem unglingar í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og hefur átt því sem næst órofa feril síðan þá. Gildran starfaði í áratugi í Mosfellsbæ og er órjúfanlegur hluti af menningarlífi bæjarins.
Gildran hefur gefið út sjö plötur og mun koma fram á fernum tónleikum í Hlégarði í haust.
Hljómsveitin hefur stutt við menningarlíf í Mosfellsbæ á liðnum árum og leikið á fjölda styrktartónleika fyrir félagasamtök í Mosfellsbæ. Gildran samdi Aftureldingarlagið og veitti jafnframt félaginu veglega peningagjöf vegna fyrsta gervigrasvallarins í Mosfellsbæ svo nokkuð sé nefnt.
Á myndinni eru: Hljómsveitin Gildran ásamt Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra, og Hrafnhildi Gísladóttur, formanni Menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar
Myndataka: Raggi Óla