Í maímánuði skrifaði Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri undir viðauka við samning um innréttingar við Magnús Þór Magnússon forstjóra fyrirtækisins Aleflis sem sér um byggingu leikskólans í Helgafellslandi. Við það tilefni var bæjarfulltrúum og starfsfólki á umhverfissviði og fræðslu- og frístundasviði boðið að koma og skoða leikskólann.
Vinna Aleflis felst í að steypa upp leikskólann, framkvæma nauðsynlegar fyllingar innan lóðar og mannvirkja ásamt því að loka og klára húsið að fullu að innan og utan. Lóð leikskólans verður við opnun fullkláruð með leiktækjum, bílaplani og gönguleiðum.
Áætluð verklok eru í lok júní 2025. Stefnt er að því að leikskólinn taki á móti fyrstu börnunum haustið 2025.