Vel heppnaður kynningarfundur um stofnun heilsuklasa í Mosfellsbæ varhaldinn í gær. Alls mættu um 60 á fundinn og á fimmta tug rituðu undirviljayfirýsingu um að taka þátt í stofnun heilsuklasans. Mikil samstaðavar meðal fundargesta og augljós áhugi um að halda verkefninu áfram.
Vel heppnaður kynningarfundur um stofnun heilsuklasa í Mosfellsbæ var haldinn í gær. Alls mættu um 60 á fundinn og á fimmta tug rituðu undir viljayfirlýsingu um að taka þátt í stofnun heilsuklasans. Mikil samstaða var meðal fundargesta og augljós áhugi um að halda verkefninu áfram.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setti fundinn, Sævar Kristinsson ráðgjafi flutti erindi um klasa og þýðingu þeirra, Sigríður Dögg Auðunsdóttir forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ ræddi um sérstöðu Mosfellsbæjar á þessu sviði, Jón Pálsson ráðgjafi fjallaði um hugsanlegan heilsuklasa í Mosfellsbæ og Gunnar Ármannson, framkvæmdastjóri PrimaCare, einkasjúkrahúss sem stefnt er að að rísi í Mosfellsbæ, skýrði frá verkefninu.
Árangursríkir klasar skapa traust og tengsl
Í erindi Sævars kom fram að klasar væru samkomulag milli tveggja eða fleiri aðila um nýtingu ákveðinna auðlinda hvers annars til að skapa aukið virði. Í klösum fælust skuldbindingar á ákveðnum sviðum til að ná fram tiltekinni framtíðarsýn og markmiðum. Árangursríkir klasar skapa traust og tengsl milli fyrirtækja. Þeir draga fram sérhæfni og getu þátttakenda, byggja upp möguleika á hagkvæmni stærðar, auka viðskiptavild og samkeppnishæfni. Þeir laða jafnframt að viðskiptavini og fjárfesta. Auk þess skapa þeir jákvætt umhverfi til nýsköpunar og byggja upp nýja þekkingu og hæfni innan klasans. Sævar sagði frá fjölmörgum dæmum um velheppnaða klasa, jafnt hér á landi sem erlendis. Einn þeirra er Í ríki Vatnajökuls, sem hann kom að stofnun á. Sævar kom jafnframt inn á að forsenda árangurs er að klasinn hafi skýra framtíðarsýn, augljós markmið, skipulag og fastmótaðan samstarfsvettvang þeirra sem að honum standa.
Mosfellsbær verði miðstöð heilsueflingar og endurhæfingar
Sigríður Dögg fór yfir styrkleika Mosfellsbæjar, græn gildi, umhverfið og heilsumenninguna. Jafnframt skýrði hún frá stefnu Mosfellsbæjar á þessu sviði og mikilvægi hennar í samhengi við stofnun heilsuklasa í Mosfellsbæ. Hún sagði frá því að heilsu- og endurhæfingartengd starfsemi í Mosfellsbæ væri ein meginstoð atvinnulífs í sveitarfélaginu með um 450 störf, sem er fjórðungur allra starfa í sveitarfélaginu. Reykjalundur, öflugasta fyrirtækið á sviði endurhæfingar og heilsueflingar á Íslandi, er stærsti vinnuveitandi sveitarfélagsins að Mosfellsbæ sjálfum undanskildum en þar eru ríflega 230 störf. Hin 220 eru á víð og dreif um bæinn í hinum ýmsu greinum í þessum geira og eru náttúrulækningar áberandi þar á meðal.
Í stefnu Mosfellsbæjar í þróunar- og ferðamálum kemur m.a. fram hvað varðar heilsubæinn Mosfellsbæ: Mosfellsbær verði miðstöð heilsueflingar og heilsutengdrar ferðaþjónustu með fjölbreytta starfsemi á sviði lýðheilsu, heilsueflingar og endurhæfingar. Stefnt er að því að efla heilsuþjónustu og heilsutengt atvinnulíf í Mosfellsbæ, að Mosfellsbær verði markaðssettur sem bær endurhæfingar og heilsueflingar, og að Mosfellsbær nýti sér sérstöðu sína í þágu heilsutengdrar ferðaþjónustu og atvinnulífið verði hvatt til framleiðslu heilsutengdra vara. Sigríður sagði einnig frá stefnu sveitarfélagsins um sjálfbært samfélag.
Ætlum að tvöfalda fjölda starfa á hverjum fimm árum
Jón Pálsson sagði frá því að markmið heilsuklasans væri meðal annars að tvöfalda fjölda starfa í heilsutengdri þjónustu í Mosfellsbæ á hverju 5 ára tímabili. Þannig getum við árið 2020 státað af tvö þúsund störfum í þessum geira í bæjarfélaginu. Efling á þessum geira væri jafnframt grunnstoð fyrir aðra starfsemi, svo sem veitingarekstur, marvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og fleira. Meðal þeirra tækifæra sem Jón nefndi að skapast við stofnun heilsuklasa eru að efla Reykjalund og byggja upp starfsemi tengda honum og í samstarfi við forsvarsmenn hans. Einnig mætti bjóða heilbrigðisráðuneyti og samfélaginu hagkvæmari lausnir í tengslum við bráðasjúkrahús undirbúning, umönnun, endurhæfingu og/eða framhaldsendurhæfingu. Þá mætti kanna möguleika á að þróa og byggja upp heilsuvæna búsetukosti og heilsutengda ferðaþjónustu.
Vonast til að fyrsta aðgerðin verði gerð 12.12. 2012
Gunnar Ármannsson fór yfir stöðu verkefnisins um byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ sem sérhæfir sig í hnjáliða- og mjaðmaskiptaaðgerðum fyrir útlendinga. Hann sagði að framvinda verkefnisins væri stöðug og jákvæð þótt enn væri töluvert í land enda hafa fjármunir ekki verið tryggðir. Ef áætlanir gengju eftir væri vonast til þess að hægt væri að gera fyrstu aðgerðina á nýju sjúkrahúsi 12.12. 2012. Hann skýrði jafnframt frá því að horfið hafi verið frá fyrirætlunum um að staðsetja sjúkrahúsið á Tungumelum. Þess í stað hefði verið ákveðið að sjúkrahúsið yrði reist í landi Sólvalla, við Akra, í urðinni fyrir ofan Hafravatnsveg.
Mikil ánægja og jákvæð viðbrögð
Talsverðar umræður voru á fundinum og lýstu fjölmargir yfir ánægju sinni með framtakið um stofnun heilsuklasa í Mosfellsbæ. Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Reykjalundar, skýrði frá starfsemi fyrirtækisins, og lýsti yfir vilja til þátttöku í heilsuklasa.
Boðað verður til formlegs stofnfundar innan skamms þar sem næstu skref verkefnisins verða ákveðin.
Nálgast má glærukynningar fyrirlesara hér að neðan.
GlærukynningHaraldar
Glærukynning Sævars
Glærukynning Sigríðar Daggar
Glærukynning Jóns