Nú standa yfir endurbætur á húsnæði Varmárskóla og hafa þær gengið vel að sögn Hallgríms Skúla Hallgrímssonar hjá umhverfissviði Mosfellsbæjar sem annast verkefnisstjórn endurbótanna.
Endurbæturnar eru samstarfsverkefni margra aðila en leidd af umhverfissviði Mosfellsbæjar með ráðgjöf frá verkfræðistofunni EFLU.
Endurbæturnar byggja annars vegar á úttekt verkfræðistofunnar Verksýnar og hins vegar ábendingum sem komu fram í heildarúttekt verkfræðistofunnar EFLU á húsnæði Varmárskóla. Þeir verktakar sem vinna á svæðum þar sem greinst hefur örveruvöxtur hafa allir umtalsverða reynslu af sambærilegum verkefnum.
Staða endurbóta í yngri deild
Í yngri deild eru fjórir verktakar að störfum og er vinna hafin í suðvestur álmunni auk kennaraálmu og bókasafninu.
Ás-Smíði hefur hafist handa við að þvo málninguna af starfsmannaálmunni og miðar því verki vel áfram. Það verður svo í þeirra verkahring að klára að múra þá álmu að nýju og endurnýja þökin á kennaraálmunni og suðvestur álmu að utan.
Fyrirtækið Pétur&Hákon verktakar eru langt komnir með að fjarlægja alla loftaklæðningu úr stofum á efstu hæð suðvestur álmu auk þess að vera búnir með rúmlega helminginn á ganginum. Næstu skref eru að fá EFLU til að merkja hvaða fjalir í þakklæðningu skuli fjarlægja og verður það gert um leið og þakjárnið verður fjarlægt, þ.e.a.s. utanfrá. EFLA hefur veitt ráðgjöf varðandi uppbyggingu á þakinu sem verður sett upp í stofunum, leiðbeint um frágang á rakavarnarlagi og hvernig best verði staðið að því að tryggja góða loftun.
Þá eru Kappar verktakar byrjaðir að vinna á þeim svæðum sem EFLA merkti til sérstakrar skoðunar í kjallara yngri deildar. Fyrsti staðurinn var bókageymslan í kjallaranum en Kappar koma síðan til með að vinna sig skipulega í gegnum þá staði sem EFLA merkti til frekari skoðunar og viðgerða.
Staða endurbóta í eldri deild
Þá hefur Ístak hafist handa við endurbætur í eldri deild. Allur tækjakostur í mötuneyti hefur verið aftengdur og næstu skref eru að fjarlægja innréttingar, gólfefni og eftir atvikum veggi á grunni leiðbeininga frá EFLU.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar leggur áherslu á að fylgja út í hörgul öllum leiðbeiningum EFLU og hefur samstarfið við verkfræðistofuna gegnið mjög vel að mati beggja aðila.
„Framkvæmdir við Varmárskóla eru nú á fullu skriði og það er ánægjulegt að okkur hafi í samstilltu átaki fjölda aðila tekist að setja af stað endurbætur á Varmárskóla sem rúmast innan þess þrönga stakks sem sumarið er sem framkvæmdatími í skólabyggingu. EFLA er nú sem fyrr okkur öflugur bakhjarli við að skipuleggja og útfæra endurbæturnar og hefur auk þess tekið að sér að vakta framgang og gæði vinnunnar miðað við þeirra gagnreyndu viðmið. Við skólasetningu í lok sumars verður öllum helstu framkvæmdum lokið þar með talið allt rask tengt vinnu við þök. Við útilokum ekki að minniháttar frágangur innanhúss gæti þurft að eiga sér stað á fyrstu dögum skólans en sjáum ekki fyrir okkur að það verði til að trufla skólahald og treystum á góða samvinnu við skólasamfélagið um þau úrlausnarefni sem slík staða gæti kallað á. “ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.