Frjálsíþróttadeild Aftureldingar stendur fyrir hinu árlega Álafosshlaupi þann 12. júní kl. 18:00.
Hlaupið hefst og endar í Álafosskvosinni þar sem verðlauna afhending fer fram. Hlaupnir eru um 9 km á margbreytilegu undirlagi þar sem leitast er við að velja óvenjulegar hlaupaleiðir. Til dæmis er hlaupið á göngustígum, slóðum og malarvegum og stokkið yfir læk. Á brattann er að sækja fyrri helminginn þar sem leiðin teygir sig næstum upp að Hafravatni en síðan er farinn malarvegur eða malbik niður í móti. Drykkir verða veittir í hlaupi og við endamark.
Álafosshlaupið er sögufrægt hlaup sem fyrst var hlaupið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi og hefur verið haldið með hléum síðan. Framan af var hlaupið á milli Álafoss og Melavallarins í Reykjavík, síðan færðist hlaupið í nágrenni Álafoss.
Kveikjan var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní 1913. Fáninn var tekinn í vörslu danskra varðskipsmanna.
Hermt er að atburðurinn hafi hleypt auknum krafti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. UMFÍ tók fánann síðar upp og gerði að sínum.
Mosfellingar og nærsveitungar eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt í þessum nær aldargamla viðburði.
Tengt efni
Álafosshlaupið fer fram laugardaginn 12. júní 2021
Álafosshlaupið verður haldið í Mosfellsbæ laugardaginn 12. júní og verður ræst kl. 10:00.
Álafosshlaupið 2011 á Hvítasunnudag
Á Hvítasunnudag fer fram hið sögufræga víðavangshlaup frá Álafosskvos.