Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2016
Greta Salóme Stefánsdóttir hefur frá barnsaldri verið virkur þátttakandi í tónlistarlífi Mosfellsbæjar. Hún sýndi snemma einstaka tónlistarhæfileika og er ein af þekktustu tónlistarkonum Íslands í dag.
Greta Salóme er með BA og MA gráður í tónlist. Hún kemur fram sem fiðluleikari, söngkona og lagahöfundur. Greta nýtir klassískan bakgrunn sinn til að flytja ýmis konar tónlist bæði sem einleikari og einnig sem hluti af hljómsveitum eða sönghópum.
Greta Salóme hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er einnig konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Greta hefur í tvígang verið fulltrúi Íslands í Eurovision keppninni og fór nú á þessu ári með sitt eigið lag. Hún hefur unnið hjá Disney samsteypunni og komið fram á tónleikum út um allan heim.