Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2023
Hljómsveitin Gildran er skipuð þeim Þórhalli Árnasyni, Karli Tómassyni, Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni.
Gildran var stofnuð 1985 í Mosfellsbæ og samanstendur að stórum hluta af einstaklingum sem hófu sinn tónlistarferil sem unglingar í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og hefur átt því sem næst órofa feril síðan þá. Gildran starfaði í áratugi í Mosfellsbæ og er órjúfanlegur hluti af menningarlífi bæjarins.
Gildran hefur gefið út sjö plötur og mun koma fram á fernum tónleikum í Hlégarði í haust.
Hljómsveitin hefur stutt við menningarlíf í Mosfellsbæ á liðnum árum og leikið á fjölda styrktartónleika fyrir félagasamtök í Mosfellsbæ. Gildran samdi Aftureldingarlagið og veitti jafnframt félaginu veglega peningagjöf vegna fyrsta gervigrasvallarins í Mosfellsbæ svo nokkuð sé nefnt.
Hljómsveitin Gildran ásamt Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra, og Hrafnhildi Gísladóttur, formanni Menningar- og lýðræðisnefndar Mosfellsbæjar.