Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019
Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, er uppalin í Mosfellsbæ og hefur verið í tónlist frá unga aldri. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlunámið færði hún sig í djasssöng og djasspíanó í FÍH meðfram námi í menntaskóla.
Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 ári hlaut Guðrún fern verðlaun. Plata Guðrúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Að auki var Guðrún Ýr valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Lætur mig.