Veitudeild Mosfellsbæjar sér um allt almennt viðhald veitukerfis í bæjarlandinu.
Reikningar
Þjónustuver Hitaveitu Mosfellsbæjar tekur á móti fyrirspurnum um reikninga.
- 516-6170
- Opið virka daga: 09:00-16:00
Bilanir
Þjónustuver Mosfellsbæjar tekur á móti tilkynningum um bilanir í vatns- og hitalögnum auk annarra neyðartilvika á opnunartíma bæjarskrifstofa.
Opið virka daga:
- mán., þri., fim. 08:00 – 16:00
- mið. 08:00 – 18:00
- fös. 08:00 – 14:00
Utan opnunartíma bæjarskrifstofa er neyðarnúmer 566-8450.
Senda inn ábendingu vegna vatns-, hita- og/eða fráveitu
Umsóknir
Leiðbeiningar fyrir umsókn um heimlögn
Umsókn um nýja tengingu við hitaveitu eða færslu heimæða er á þjónustugátt Mosfellsbæjar.
- Skráir þig inn á þjónustugáttina með rafrænum skilríkjum.
- Smellir á flokkinn „Umsóknir“.
- Smellir á hlekkinn „08 Framkvæmd og skipulag“.
- Smellir á hlekkinn „Umsókn um heimlögn (heitt og kalt vatn)“.
- Fyllir út formið og smellir á „Senda umsókn“.
Reikningur fyrir umsókn mun birtast í netbanka orkukaupanda. Umsóknin telst ekki gild fyrr en greiðsla hefur borist.
Gera má ráð fyrir þrem vikum frá greiðslu þar til heimlögn er tengd nýju mannvirki. Tekið verður tillit til byggingarstöðu mannvirkis varðandi dagsetningu tengingar og mun starfsmaður veitna upplýsa umsækjanda áætlaða dagsetningu. Svo tenging geti átt sér stað þarf lagnaleið að vera greið, lóð grófjöfnuð, hús fokhelt og veggur inntaksgrindar fullfrágenginn.
Veitur.is
Tengiskilmálar
Spurt og svarað
Álestri af hitaveitumælum er skilað einu sinni á ári sem er þá uppgjörsreikningur fyrir árið. Oft þarf ekki meira til en að einn ofnloki sé bilaður eða blæðing fyrir snjóbræðslu stendur á sér til að hækka notkun töluvert.
Gott væri að líta yfir kerfið eða fá fagmann í það öðru hverju til að fyrirbyggja óþarfa notkun og athuga hvort eitthvað sé að.
Þjónustuver Hitaveitu Mosfellsbæjar tekur á móti fyrirspurnum um reikninga, sími: 516-6170.
Til bæjarins í gegnum Ábendingakerfið.
Líklega stendur þrýstijafnari á sér eða er bilaður. Það þarf að fá pípulagningarmann til að skoða þetta.
Þetta bendir til að það sé stífluð sía á inntakinu sem þarf að hreinsa. Vinsamlega hafðu samband við þjónustuver Mosfellsbæjar í síma 525-6700 eða mos[hja]mos.is. Þjónustuverið kemur þér í samband við starfsfólk Hitaveitunnar.
Hönnunarleiðbeiningar til veituhönnuða
Útgáfudagsetning 07.05.2021
Hér verða lagðar fram hönnunarleiðbeiningar Mosfellsbæjar til veituhönnuða. Tilgangur hönnunarleiðbeininganna er að samræma vinnu hönnuða sem hanna veitukerfi fyrir Mosfellsbæ og skilgreina þær kröfur sem Mosfellsbær gerir til hönnuða.
Hönnunarleiðbeiningar Mosfellsbæjar byggjast á hönnunarleiðbeiningum Veitna.
Hönnuðir skulu fylgja hönnunarleiðbeiningum Veitna eins og þær eru á hverjum tíma. Auk þess skulu hönnuðir fylgja þeim sérákvæðum sem koma fram í þessu minnisblaði. Sérákvæðin koma í staðinn fyrir eða eru lögð fram sem ítarefni við hönnunarleiðbeiningar Veitna.
Planhnit skulu vera í ISN93 landshnitakerfinu en hæðarkerfi skal vera hæðarkerfi Reykjavíkurborgar.
Koma skal fram á öllum teikningum hvaða hnitakerfi hönnunin byggir á, í plani og í hæð.
Lagnir veitumiðla sem liggja saman í skurði skulu almennt vera sýndar á sömu teikningu. Þannig skal sýna vatnsveitulagnir og fráveitulagnir á sömu hönnunarteikning. Þar sem hitaveitulagnir liggja almennt í gangstétt þá skal sýna hitaveitu á sérstakri hönnunarteikningu.
Þar sem vatns- og fráveitulagnir liggja í sama skurði og hitaveita getur verið viðeigandi að sýna vatns- og fráveitulagnir á sömu teikningu og hitaveitulagnir. Áður en tekin er ákvörðun um að sýna vatns- og fráveitu á sömu teikningu og hitaveitu skal bera málið undir Mosfellsbæ.
Teikningar allra veitumiðla skulu sýna bæði grunnmynd og langsnið. Teikningar skulu fylgja hönnunarleiðbeiningum Veitna varðandi merkingar á teikningum og litarval lagna.
Teikningarlykillinn er 10 stafa og skipt upp í KUU-RRR-HHHH
KUU – Tegundaflokkun | Vatns- og fráveita | Hitaveita |
---|---|---|
Almennt | 170 | 160 |
Skurðplan | 171 | 161 |
Rafbúnaður | 173 | 163 |
Vélbúnaður | 174 | 164 |
Lagnakerfi (planmynd) | 175 | 165 |
Sérteikningar | 178 | 168 |
Stýringar - kerfismyndir | 179 | 169 |
RRR – Ráðgjafi
Skammstöfun sem einkennir viðkomandi ráðgjafafyrirtæki í hámark þremur bókstöfum.
HHHH – Raðnúmer
Raðnúmer hvers kerfishluta innan viðkomandi verkefnis.
Ávallt skal styðjast við gögn Vegagerðarinnar „Reglur um vinnusvæðamerkingar“ og „Merking vinnusvæða – Teikningar“ þegar hannaðar eru vinnusvæðamerkingar í Mosfellsbæ.
Þegar hönnun er lokið skulu hönnuðir útbúa teikningu á dwg/dxf formi og senda til Mosfellsbæjar á netfangið veitur@mos.is.
Teikningin skal vera á ákveðnu formi, sem lýst er hér að neðan.
Nafn skráa:
- Nafn skráa skal vera á forminu V-NNNN-Ú.
- V stendur fyrir tegund veitumiðil:
- H fyrir heitt vatn
- K fyrir kalt vatn
- S fyrir skólp
- R fyrir regnvatn
- NNNN stendur fyrir nafni verksins (má vera fleiri stafir).
- Ú stendur fyrir útgáfu verkefnis
- Hvert skipti sem breyting fer fram á hönnun og verkefni aftur skilað til Mosfellbæjar skal breyta útgáfunúmeri. Útgáfunúmer er hlaupandi númer og byrjar á 1.
Lagnir: Lagnir skulu vera á forminu LINE. Við hlið hverrar lagnar skal vera texti sem lýsir stærð lagnarinnar.
Brunnar og lokar: Brunnar og lokar skulu merktir inn en þurfa ekki að vera merktir með stærð.
Í teikningu sem send er til Mosfellsbæjar skal einungis vera þeir hlutir sem lýst er hér að ofan. Allar blokkir og POLYLINE skal sprengja. Einnig skal eyða öllum HATCH og SOLID hlutum úr teikningunni.
Um Hitaveitu Mosfellsbæjar
Hitaveita Mosfellsbæjar var stofnuð árið 1943 og er eign Mosfellsbæjar, undir yfirstjórn bæjarstjórnar en rekstrarstjórn hennar er falin forstöðumanni tækni- og umhverfissviðs.
Veitusvæði hitaveitunnar er lögsagnarumdæmi Mosfellsbæjar og hefur hitaveitan einkarétt til dreifingar og sölu á heitu vatni á veitusvæði sínu.
Tilgangur hitaveitunnar er að afla, selja og veita heitu vatni um veitusvæði sitt og reka aðra þá starfsemi sem því tengist.
Gjaldskrár
1. gr.
Af öllum húseignum í Mosfellsbæ skal greiða árlega fráveitugjald samkvæmt gjaldskrá þessari, sem skal varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins, sbr. 23. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ, nr. 1014/2010.
2. gr.
Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera mat fasteigna þ.e. samanlagt fasteignamat húsa og lóða, samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, með síðari breytingum. Fráveitugjald skal nema 0,090% af álagningarstofni.
Gjalddagar fráveitugjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.
3. gr.
Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Fráveitugjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur fráveitugjaldið lögveðsréttar með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði, sbr. 16. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 og 23. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ.
4. gr.
Við álagningu árlegs fráveitugjalds getur bæjarstjórn samþykkt að nýta heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um niðurfellingu eða lækkun til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.
5. gr.
Í þeim tilvikum sem Mosfellsbær nýtir heimild samkvæmt 20. gr. samþykkta um fráveitu sveitarfélagsins til að innheimta stofngjald skal það nema kr. 247.220 fyrir hvern 6″ heimæðarstút.
Fyrir heimæðarstúta stærri en 6″ greiðast kr. 384.707 eða raunkostnaður veitunnar hverju sinni.
Í þeim tilvikum þar sem lengd heimæðar frá stofnæð að lóðarmörkum fer yfir 10 metra skal innheimta raunkostnað hverju sinni.
Óski húseigandi eftir færslu fráveituheimæðar að nýjum tengipunkti greiðir hann útlagðan kostnað veitunnar.
6. gr.
Gjaldskrá þessi var samþykkt af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 817. fundi þann 7. desember 2022, með vísan til samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ nr. 1014/2010, sbr. og 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og reglugerð um fráveitur sveitarfélaga, nr. 982/2010, og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá sama efnis nr. 1724/2021.
Mosfellsbæ, 8. desember 2022.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
B deild – Útgáfud.: 10. janúar 2023
I. KAFLI
1. gr.
Hitaveita Mosfellsbæjar selur afnot af heitu vatni úr hitaveitukerfum þeim, sem gerð hafa verið eða verða gerð í Mosfellsbæ og til þeirra húsa, sem fá vatn frá aðfærsluæð, eftir þeim reglum sem settar eru í gjaldskrá þessari samanber reglugerð fyrir Hitaveitu Mosfellsbæjar.
2. gr.
Hitaveita Mosfellsbæjar lætur hverju húsi, sem er í sambandi við kerfi hennar, í té vatnsmagn er áætla má að nægi til hitunar á húsinu, enda séu ofnar hússins nægilega stórir að dómi veitunnar.
3. gr.
Vatnsmagn það, sem látið er í té samkvæmt 1. og 2. gr., er afhent notanda um rennslismæli sem hitaveitan leggur til og annast viðhald á. Mælir þessi skal innsiglaður og er húseiganda/notanda með öllu óheimilt að rjúfa innsigli mælisins.
II. KAFLI
4. gr.
1. Gjald fyrir afnot af heita vatninu er sem hér segir:
Heitt vatn um rennslismæli: | kr. | 2% skattur | Með 11% vsk. | Grunnur |
A. Fyrir hvern rúmmetra vatns. | 119,03 | 2,38 | 134,50 | kr./m3 |
2. Mælaleiga:
Auk þess greiðist fastagjald árlega háð afköstum rennslismælisins en óháð töxtum að öðru leyti.
Fastagjaldi er skipt í þrjá flokka: | kr./dag | 2% skattur | Með 11% vsk. | Grunnur |
A.15-20 mm. | 53,51 | 1,07 | 60,46 | kr./dag |
B. 25-50 mm. | 119,90 | 2,40 | 135,49 | kr./dag |
C. 65 mm. og stærri. | 224,30 | 4,49 | 253,46 | kr./dag |
3. Sérstakir notendur:
Sérstakir notendur greiða fyrir afnot af heita vatninu sem hér segir:
Notandi | kr./m3 | Athugasemdir | 2% skattur | Með 11% skatt | Grunnur |
A. Almenningssundlaugar. | 38,78 | Gildir fyrir almenningssundlaugar í eigu sveitarfélaga. Með taxtanum telst baðvatn og vatn til set- og vaðlauga. | 0,78 | 43,82 | kr./m3 |
B. Sundlaugar stofnana. | 66,71 | Til þessa flokks teljast sundlaugar sem reknar eru af stofnunum sem ekki eru í beinni eigu sveitarfélaga. Með taxtanum telst baðvatn og vatn til set- og vaðlauga. | 1,33 | 75,38 | kr./m3 |
C. Gróðurhús. | 52,20 | Taxtinn gildir fyrir gróðurhús sem framleiða garðyrkjuafurðir í atvinnuskyni. | 1,04 | 58,99 | kr./m3 |
D. Vatnsverð án flutningsgjalda. | 88,64 | 1,77 | 100,16 | kr./m3 | |
E. Upphitaðir íþróttavellir utandyra. | 102,31 | 2,05 | 115,61 | kr./m3 | |
F. Iðnaðarvatn í framleiðsluferla. | 84,29 | 1,69 | 95,25 | kr./m3 |
Taxtinn gildir fyrir þá aðila sem eiga heimæðar sínar og sjá um rekstur þeirra og viðhald á eigin kostnað. Mælir er þá staðsettur veitumegin við heimæðina. Mælagjaldinu er dreift jafnt niður á fjölda reikningstímabila eins og þau eru ákveðin hverju sinni.
4. Innheimtuviðvörun:
Ef til vanskila kemur bætist við gjald vegna innheimtuviðvörunar, 20 dögum eftir gjalddaga. Innheimtugjöld miðast við heimildir í reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar. Gjald vegna innheimtuviðvörunar er kr. 950 án vsk.
5. gr.
Fjöldi reikningstímabila, sem þó skulu eigi vera færri en fjögur á ári, og innheimtutilhögun hitaveitugjalda hverju sinni sbr. 4. gr. skulu ákveðin af bæjarstjóra. Það teljast vanskil sé reikningur ekki greiddur á gjalddaga.
Hitaveita Mosfellsbæjar skal tilkynna notendum sínum með hæfilegum fyrirvara ef hún ákveður að breyta fjölda reikningstímabila hitaveitureikninga og skal jafnan miða við að breytingar á gjaldskrá taki gildi við upphaf hvers reikningstímabils til að auðvelda notendum úrlestur hitaveitureikninga og hitaveitunni álagningu þeirra.
III. KAFLI
6. gr.
Almenn verð heimæða gilda á nýbyggingasvæðum þar sem inntaksrými er samkvæmt skilmálum. Verðin gilda ekki þar sem gengið hefur verið varanlega frá yfirborði og fullnægjandi veitulagnir ekki komnar að lóðamörkum, en þar greiðir umsækjandi til samræmis við kostnaðaráætlun. Geri húseigandi eða lóðarhafi breytingar á skipulagi fasteignar frá útgefnu skipulagi sveitarfélags, ber hann að auki allan kostnað við færslu eða breytingar veitulagna og inntaksbúnaðar á inntaksstað.
Heimæðargjald Hitaveitu Mosfellsbæjar skal vera sem hér segir, fyrir eina heimæð:
Sverleiki pípu | Upphæð án vsk. kr. | Með 11% skatt | Með 24% vsk | Grunnur |
Stærð DN20 (25mm PEX) | 192.192 | 213.333 | 238.318 | kr./stk. |
Stærð DN25 (32mm PEX) | 365.708 | 405.936 | 453.478 | kr./stk. |
Stærð DN32 (40mm PEX) | 549.195 | 609.607 | 681.002 | kr./stk. |
Stærð DN40 (50mm PEX) | 1.123.276 | 1.246.836 | 1.392.862 | kr./stk. |
Stærð DN50 (63mm PEX) | 1.820.719 | 2.020.998 | 2.257.691 | kr./stk. |
Stærð DN65 (75mm PEX) | 3.639.460 | 4.039.800 | 4.512.930 | kr./stk. |
Stærð DN80 (90mm PEX) | 7.273.797 | 8.073.914 | 9.019.508 | kr./stk. |
Stærð heimæðar er ákvörðuð af Hitaveitu Mosfellsbæjar í samræmi við ósk kaupenda um vatnsmagn í umsókn. Þar sem lengd heimæðar er minni en 20 metrar gildir ofangreind verðskrá. Fyrir hvern metra umfram 20 metra er heimilt að innheimta 10% af heimæðagjöldum 20 til 32 mm og 1% af stærðum 40 til 80 mm. Óski húseigandi eftir færslu heimæða að nýjum tengipunkti greiðir hann heimæðagjöld að nýju.
Gjald vegna tengingar vinnuvatns er kr. 117.880 án vsk.
Heimæðargjald skal greiðast áður en heimæð tengist hitakerfi hússins, samkvæmt gildandi gjaldskrá.
Nú eru fleiri en eitt hitunarkerfi í húsinu með sérstökum hemlum eða mælum frá hitaveitunni og skal þá greiða kr. 53.979 aukalega fyrir hvern mæli/hemil.
Virðisaukaskattur bætist við öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari og tekur mið af gildandi reglum um virðisaukaskatt á hverjum tíma.
7. gr.
Nú eru leyfð afnot af hitaveitunni til annars en húshitunar, og er þá bæjarráði heimilt að ákveða gjald fyrir þau afnot sérstaklega í hverju tilviki með hliðsjón af gjaldskrá þessari.
8. gr.
Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari má taka lögtaki á kostnað gjaldanda.
9. gr.
Hitaveitan hefur rétt til að loka aðrennsli heita vatnsins að húsi eða íbúð húseiganda, sem vanrækir að greiða hitaveitugjöld. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir eindaga og að undangenginni skriflegri viðvörun, sem sendist kaupanda með eigi skemmri en þriggja daga fyrirvara. Allan kostnað við lokun og opnun á ný greiðir sá, sem í vanskilum er, kr. 23.097 í hvert skipti sem opnað er.
10. gr.
Eftirlitsmanni Hitaveitu Mosfellsbæjar skal, hvenær sem er, frjáls aðgangur að öllum hitakerfum, sem tengd eru við hitaveituna. Er húseiganda skylt að hlíta tafarlaust fyrirmælum hans um viðgerðir á bilunum og sérhverjum ráðstöfunum til varnar gegn misnotkun á heita vatninu.
11. gr.
Gjaldskrá þessi, sem samþykkt er af bæjarstjórn Mosfellsbæjar, staðfestist hér með samkvæmt orkulögum nr. 58/1967, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. febrúar 2023. Jafnframt er úr gildi felld eldri gjaldskrá sama efnis nr. 122/2022.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 19. janúar 2023.
F. h. r.
Sigríður Svana Helgadóttir.
Hreinn Hrafnkelsson.
B-deild – Útgáfudagur:
1. gr.
Af öllum húseignum í Mosfellsbæ sem staðsettar eru á deiliskipulögðum íbúðarsvæðum og á lögbýlum þar sem fráveituvatn húseigna er leitt í rotþrær skal greiða árlegt rotþróargjald samkvæmt gjaldskrá þessari, sem skal varið til þess að standa straum af kostnaði við hreinsun og tæmingu rotþróa í sveitarfélaginu, sbr. 18. gr. samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ, nr. 1014/2010.
2. gr.
Fyrir tæmingu hverrar rotþróar, skal greiða árlega kr. 50.760. Sé ekkert mannvirki á lóð, greiðist ekki rotþróargjald. Gjalddagar rotþróargjalds skulu vera þeir sömu og bæjarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu hans.
Óski húseigandi eftir því að rotþró sé tæmd til viðbótar við reglubundna tæmingu, skal hann greiða fyrir slíka tæmingu samkvæmt reikningi losunaraðila.
3. gr.
Rotþróargjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar og ber hann ábyrgð á greiðslu gjaldsins.
Rotþróargjaldið má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Nýtur rotþróargjaldið lögveðsréttar með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði, sbr. 23. gr. í samþykkt um fráveitu Mosfellsbæjar.
4. gr.
Við álagningu árlegs rotþróargjalds getur bæjarstjórn samþykkt að nýta heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um niðurfellingu eða lækkun til tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega.
5. gr.
Gjaldskrá þessi sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 817. fundi þann 7. desember 2022 með vísan til samþykktar um fráveitu í Mosfellsbæ nr. 1014/2010, staðfestist hér með skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Gjaldskráin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá um sama efni nr. 1726/2021.
Mosfellsbæ, 8. desember 2022.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
B deild – Útgáfud.: 10. janúar 2023
1. gr. Vatnsgjald
Af öllum fasteignum í Mosfellsbæ sem tengdar eru Vatnsveitu Mosfellsbæjar, skal greiða vatnsgjald árlega til Mosfellsbæjar, nema sérstaklega sé um annað samið.
Almennt vatnsgjald skal vera 0,065% af fasteignamati mannvirkja og lóða. Gjalddagar almenns vatnsgjalds eru þeir sömu og bæjarstjórn ákveður hverju sinni vegna álagðra fasteignagjalda í sveitarfélaginu.
2. gr. Heimæðagjöld
Verð hér að neðan miðast við að umsækjandi hafi lagt ídráttarrör á frostfríu dýpi frá tengistað vatnsveitu við lóðarmörk að inntaksstað í húsi sem Veitur í Mosfellsbæ hafa samþykkt. Óski umsækjandi eftir því að Vatnsveita Mosfellsbæjar sjái um jarðvinnu vegna heimlagna, bætist sá kostnaður við tengigjald vatnsveitunnar.
Gjald vegna heimæða skal vera sem hér segir.
- 32 mm rör = 221.181 kr. án vsk.
- 40 mm rör = 294.613 kr. án vsk.
- 50 mm rör = 423.939 kr. án vsk.
- 63 mm rör = 811.025 kr. án vsk.
- 75 mm rör = 1.160.318 kr. án vsk.
- 90 mm rör = 1.441.816 kr. án vsk.
- 110 mm rör = 1.605.574 kr. án vsk.
- 140 mm rör = 1.800.690 kr. án vsk.
- 180 mm rör = 2.161.837 kr. án vsk.
Stærð heimæðar er ákvörðuð af Vatnsveitu Mosfellsbæjar í samræmi við ósk kaupenda um vatnsmagn í umsókn. Þar sem lengd heimæðar er styttri en 20 metrar gildir ofangreind verðskrá. Fyrir hvern metra umfram 20 metra er heimilt að innheimta 1% lengdargjald af heimæðagjöldum viðkomandi málstærðar.
Ein tengigrind er innifalin í hverju tengigjaldi, fyrir hverja aukatengigrind greiðist 10% af tengigjaldi viðkomandi málstærðar. Heimæðar stærri en 110 mm (4“) eru gjaldfærðar til samræmis við raunkostnað. Við mat á umsóknum er tekið mið af flutningsgetu aðliggjandi götu- eða stofnæðar.
Óski húseigandi eftir færslu heimæða að nýjum tengipunkti greiðir hann heimæðagjöld að nýju til samræmis við málstærð heimæðar.
Skýringar:
Almennt verð heimæða gildir í þéttbýli á nýbyggingarsvæðum. Verð gildir ekki þar sem búið er að ganga varanlega frá yfirborði og fullnægjandi veitulagnir ekki komnar að lóðarmörkum. Reiknist áætlaður heildarkostnaður við heimæðina meira en 50% hærri en verðskrá segir til um þá greiðir umsækjandi til viðbótar allan kostnað sem verður umfram þessi 50%. Viðbótarkostnaður samkvæmt þessari reiknireglu er ekki innheimtur samhliða innheimtu yfirlengdargjalda. Geri húseigandi breytingu á skipulagi húss frá útgefnu skipulagi sveitarfélagsins t.d. með því að færa til bílskúr eða annan inntaksstað ber hann til viðbótar allan kostnað við færslu eða breytingu lagna.
Álag vegna vatnsúðaheimæða er kr. 4.292.568 fyrir hverja heimæðarlögn.
Gjald vegna tengingar vinnuvatns er kr. 120.957 án vsk.
Skýringar:
Vinnuvatn er aðgangur að vatni til byggingaframkvæmda og/eða skammtímanotkunar og uppfærist skv. byggingarvísitölu. Gjaldskrárverð gildir þegar tengt er við heimæðarenda sem kominn er inn fyrir lóðarmörk. Vinnuvatnstenging er aflögð um leið og heimæð er tengd inn í hús samkvæmt umsókn, en þá er ekki greitt sérstaklega fyrir aftengingu. Við aðrar aðstæður og fyrir stærri tengingu en 50 mm er tenging gjaldfærð til samræmis við raunkostnað.
3. gr. Mælagjöld
Gjald vegna rennslismæla skal vera sem hér segir, verð án vsk.
Stærð mælis og verð kr./dag án vsk.:
- 15 mm = 40,18 kr./dag án vsk.
- 20 mm = 44,16 kr./dag án vsk.
- 25 mm = 57,04 kr./dag án vsk.
- 32 mm = 63,02 kr./dag án vsk.
- 40 mm = 80,06 kr./dag án vsk.
- 50 mm = 94,01 kr./dag án vsk.
- 80 mm = 253,24 kr./dag án vsk.
- 100 mm = 258,44 kr./dag án vsk.
4. gr. Graftrargjöld
Gjald er lagt á vegna ídráttarröra, fleygunar og sprenginga.
Vanti ídráttarrör eða ídráttarrör reynist ónothæf, greiðist kr. 10.581 án vsk. pr. lengdarmetra í heimlagnaskurði.
Reynist nauðsynlegt að fleyga eða sprengja klöpp eða að frost er í jörðu bætist eftirfarandi kostnaður við skurðgröft, sbr. 1. mgr., sem innheimtist eftir á.
- Klaki/klöpp: Dýpt cm. < 30 = 3.984 kr./lengdarmetra/án vsk.
- Klaki/klöpp: Dýpt cm. > 30 = 8.045 kr./lengdarmetra/án vsk.
Vatnsveitan gefur upp innmælingu og/eða staðsetur heimæðarenda við lóðarmörk.
5. gr. Notkunargjald
Notkunargjald er kr. 51,23 pr. m³ án vsk.
Skýringar:
Þar sem vatn fá vatnsveitu er notað til atvinnustarfsemi eða annars en venjulegra heimilisþarfa er auk vatnsgjalds innheimt notkunargjald skv. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004. Heimilt er að innheimta notkunargjald samkvæmt áætlun ef ekki er unnt að koma við mælingu.
6. gr. Ábyrgð á greiðslu gjalda
Vatnsgjald og heimæðargjald greiðist af hús- og íbúðareiganda og lóðarréttarhafa og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjöldin eru tryggð með lögveðsrétti í fasteigninni næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði. Notkunargjald, ásamt áföllnum kostnaði og vöxtum má taka fjárnámi.
7. gr. Gildistaka
Gjaldskrá þessi sem samþykkt var af bæjarstjórn Mosfellsbæjar á 817. fundi þann 7. desember 2022 er sett með stoð í 10. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur og 11. gr. reglugerðar nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga og öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá nr. 1291/2019.
Mosfellsbæ, 8. desember 2022.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
B deild – Útgáfud.: 10. janúar 2023.