Markmið og verklagsreglur Mosfellsbæjar um staðfangaskráningar
Mosfellsbær tryggir skýrar og öruggar skráningar á staðföngum (heimilisföngum) í samræmi við reglugerð nr. 577/2017. Samkvæmt henni skal hver lóð tengjast a.m.k. einu staðfangi, sem samanstendur af nafni, númeri og staðsetningarhnitum. Staðfang gefur upp staðvísir (nafn) og staðgreini (númer), sem saman mynda einkvæmt heimilisfang.
Sveitarfélagið ber ábyrgð á skráningu og viðhaldi staðfanga. Samþykki Mosfellsbæjar þarf fyrir nýjum staðföngum, götuheitum og örnefnum. Unnið er að því að forðast tvítekin eða villandi heiti innan sama hverfis eða póstnúmers, og tryggja að hvert húsnúmer hafi einstakt heiti og númer.
Staðfang: Staðfang auðkennir ákveðinn stað eða eign og er víðtækara en hefðbundið heimilisfang. Í þéttbýli samanstendur það oft af götuheiti og númeri (t.d. Þverholt 2), en í dreifbýli getur það verið örnefni og númer (t.d. Laxnes 2). Staðföng eiga að vera lýsandi fyrir staðsetningu og skráð í fasteignaskrá.
Staðvísir og staðgreinir: Staðvísir er heiti götunnar, staðar eða lögbýlis. Hann þarf að vera einstakur innan sveitarfélagsins og ekki of líkur öðrum. Standi hús eða eignir við götu skal notast við það heiti. Notast skal við skýr og einföld heiti staðvísa og fylgja reglum Örnefnanefndar og Íslenskrar málnefndar.
Staðgreinir er númerahluti staðfangsins, oft húsnúmer. Bókstafir geta verið notaðir ef fleiri en ein bygging deilir sama grunngildi (t.d. 12A og 12B). Númeraröð raðast eftir legu við götu og miðast við fjölda bygginga eða innganga á lóð/hús.
Viðskeyti og sérheiti: Sérheiti (viðskeyti) er valfrjálst aukanafn sem skráð er með staðfangi. Það stendur aldrei eitt og sér sem heimilisfang. Sérheiti verður að byggja á sögulegum heimildum eða örnefnum tengdum staðnum. T.d. ef eign ber hefðbundið nafn eins og „Friðriksberg“ getur staðfang verið „Amsturdam 3 Friðriksberg“. Þar er Friðriksberg skráð sem sérheiti tengt við staðfangið. Sérheiti geta þannig átt við fleiri en eitt númer, t.d. geta tvö hús á sömu jörð borið sama sérheiti (heiti jarðarinnar) en hafa hvort sitt númerið.
Mosfellsbær hefur þá stefnu að sérheiti skuli eingöngu skráð þegar fullnægjandi rök styðja það. Markmið Mosfellsbæjar er ekki að fjölga sérheitum eða leyfa frjálsar skráningar sérheita. Persónuleg gælunöfn á sumarhúsum, s.s. „Paradísarstaðir“ eða „Hamingjuhóll“, eru ekki viðurkennd sem sérheiti. Sama á við um almenn staðareinkenni eða lýsingar sem ekki hafa sögulegar heimildir, s.s. „Djúpagil“ eða „Grænabrekka“.
Til að skrá sérheiti þarf að senda formlega umsókn til skipulagsfulltrúa á Mínum síðum Mosfellsbæjar. Í umsókn þarf að tilgreina hvaða heiti er lagt til og rökstyðja hvernig það samræmist ofangreindum reglum. Vísa skal til heimilda, í örnefnaskrá, sögulegra gagna eða annarra staðreynda sem renna stoðum undir nafngiftina. Mosfellsbær metur beiðnir og leitar álits sérfræðinga ef þörf krefur. Samþykkt sérheiti verða skráð sem viðbótarauðkenni í fasteignaskrá.
Ný og breytt staðföng: Ný staðföng eru úthlutuð þegar nýjar lóðir verða til. Fjöldi númera miðast við notkunareiginleika lóðarinnar. Nafngiftir krefjast samþykkis bæjarstjórnar. Heiti á deiliskipulagi eða nafngiftir í einkaréttarlegum samningum hafa ekki vægi umfram ákvörðun bæjarstjórnar.
Breytingar á staðföngum eru þannig heimilar án deiliskipulagsbreytinga. Algeng ástæða er að eldri heiti séu ekki lýsandi eða margar eignir deili sama nafni. Einnig getur aðkoma eigna hafa breyst og standa þær því við aðra götu. Markmið er að tryggja öryggi og skýra aðgreiningu fyrir þjónustuaðila og viðbragðsaðila. Sérheiti við slíkar eignir verða uppfærð eftir þörfum en markmiðið er að varðveita gömul og þekkt staðarheiti.
Endurskoðun staðfanga í dreifbýli: Mosfellsbær vinnur nú að heildarendurskoðun staðfanga í dreifbýli og frístundabyggðum í áföngum. Meginmarkmið er að fækka endurteknum heitum og skrá lýsandi staðföng. Algengasta ástæðan fyrir staðfangabreytingu er að eldri heiti og númer séu ekki nógu lýsandi eða að margar fasteignir (lönd) deili sama eða mjög svipuðu heiti, sem brýtur í bága við reglur.
Árið 2022 var svæðið norðan Hafravatns uppfært, og lóðir við Óskotsveg fengu ný staðföng. Svæðin við Selvatn urðu síðan hluti af Selvatnsvegi og Selmerkurvegi. Næst eru lóðir við Krókatjörn og Silungatjörn sem fá staðföng við Tjarnaveg og Krókaveg. Teymi á umhverfissviði vinnur að umræddri endurskoðun. Rétt og einstök skráning er ekki aðeins lagaskylda heldur mikilvægt öryggisatriði, skýr staðföng auðvelda lögreglu, slökkviliði og sjúkraflutningum að finna staðinn og lágmarka líkur á töfum eða misskilningi.
Öll heiti byggja á örnefnum og landfræðilegum staðháttum. Verkefnið heldur áfram þar til öll helstu frístundasvæði hafa verið yfirfarin. Íbúar fá tilkynningar með fyrirvara áður en breytingar taka gildi. Endurskoðunin mun einnig snerta stök eldri svæði þéttbýlisins og Mosfellsdals.
Ferli og framkvæmd: Það er skipulagsnefnd sem ákveður nöfn gatna (staðvísa) í samræmi við tillögur kjörinna fulltrúa, umhverfissviðs, landeigenda eða íbúa. Tillögur um ný nöfn og breytingar eru teknar fyrir í skipulagsnefnd. Ef um breytingu staðfangs er að ræða fá eigndur tilkynningu í pósti eða á Ísland.is, þar sem gefinn er kostur að koma með ábendingar áður en til framkvæmdar kemur. Bæjarstjórn staðfestir breytingar og umhverfissvið Mosfellsbæjar skráir þær. Húseigendum ber að merkja ný heiti og tilkynna þjónustuaðilum, s.s. ja.is.