1. Ráðningar
Mosfellsbær byggir þjónustu sína á áhugasömu og hæfu starfsfólki sem hefur tækifæri til að rækta þekkingu sína og færni í jákvæðu starfsumhverfi. Mosfellsbær leggur metnað í að ráða hæfasta fólkið sem er virkt, sjálfstætt og áhugasamt. Starfsfólk Mosfellsbæjar er ráðið á grundvelli reynslu, hæfni,
menntunar og hæfileika til að takast á við starfið.
- Til að tryggja sanngirni og fagmennsku við allar ráðningar hjá Mosfellsbæ er fylgt verklagsferlum um ráðningar sem eru hluti af gæðakerfi Mosfellsbæjar.
- Laus störf eru auglýst á opinberum vettvangi.
- Við gætum jafnræðis við ráðningar. Í öllum auglýsingum um starf hjá Mosfellsbæ skal koma fram að ráðið er í öll störf óháð kyni.
- Konum og körlum eru greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.
- Verklagsreglum jafnlaunakerfis og jafnlaunavottunar er fylgt við launaákvarðanir.
- Kjör starfsfólks taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga eða ákvæðum í ráðningarsamningum.
Að ráða hæfasta einstaklinginn með réttu hæfnina í hvert starf er lykilatriði í því að lækka ráðningarkostnað og að ráða „flott fólk“ í hvert stöðugildi.
2. Nýtt starfsfólk
Hjá Mosfellsbæ er lögð áhersla á að ráða hæfasta fólkið til starfa. Starfsfólk bæjarfélagsins er hvatt til þess að vera virkt, sjálfstætt og áhugasamt í starfi. Áhersla er lögð á að vel sé tekið á móti okkar „flotta fólki“ strax á fyrsta degi í starfi og að starfsfólk bæjarfélagsins sé stolt af vinnustað sínum. Það er lykilatriði að upplifun nýs starfsfólks sé jákvæð frá fyrsta degi í starfi.
Yfirmaður sér til þess að nýr starfsmaður fái viðeigandi stuðning til að ásamt boði um að taka þátt í nýliðafræðslu. Nýtt starfsfólk fær í upphafi starfs bók með gildum Mosfellsbæjar sem eru: virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
3. Flott fólk
Helstu verkefni Mosfellsbæjar samkvæmt stefnumótun eru að auka lífsgæði bæjarbúa og ánægju starfsfólks í ört vaxandi bæjarfélagi. Mosfellsbær leggur kapp á að veita íbúum góða þjónustu og er því afar mikilvægt að starfsfólk Mosfellsbæjar tileinki sér jákvætt viðmót og þjónustulund. Starfsfólk Mosfellsbæjar tekur tillit til ólíkra sjónarmiða, ber virðingu fyrir störfum hvers annars og starfar sem ein heild, þvert á svið og stofnanir.
Við eflum okkar flotta fólk með því að vera:
- Samstarfsfús: Við virkjum félagsauðinn með félagslegu neti íbúa og starfsfólks. Virkt íbúalýðræði og samráð leiðir til samtals og samvinnu milli starfsfólks, íbúa og kjörinna fulltrúa.
- Framsækin: Við erum framsækin, samstíga og höfum þor til að þróa nýjar leiðir í starfseminni. Gætum að símenntun starfsfólks og sköpum fjölskylduvænt starfsumhverfi þar sem ríkir launajafnrétti. Auk þess að nýta okkur þau tæki og hugbúnað sem gagnast snjallbænum Mosfellsbæ.
- Meðvituð: Við erum til fyrirmyndar í rekstri og þróun starfseminnar. Íbúar og starfsfólk eru meðvitaðir um kostnað. Sveitarfélagið er rekið af ábyrgð og þannig afhendum við rekstur þess til komandi kynslóða.
4. Starfsþróun
Mosfellsbær hvetur starfsfólk sitt til að viðhalda og auka við færni sína í starfi og leggur sitt af mörkum til að ýta undir áhuga og metnað starfsfólks í þeim efnum. Lögð er áhersla á að nýta tækniframfarir og sýna framsækni í starfi með það að markmiði að auðvelda vinnubrögð og gera þau skilvirkari.
Mosfellsbær er lærdómssamfélag þar sem þekkingu er miðlað innan og milli stofnana. Stjórnendur hvetja starfsfólk sitt til að viðahalda og auka færni sína með því að og leggja sitt af mörkum til að ýta undir áhuga og metnað starfsfólks til að þroska og þróa sig í starfi.
5. Stjórnandinn
Stjórnendur í Mosfellsbæ eru fyrirmynda annarra starfsmanna. Krafa er gerð um að þeir gangi fram með góðu fordæmi, sýni ábyrgð og óhlutdrægni í störfum sínum. Stjórnendur skulu leggja sig fram við að vera faglegir í öllum ákvarðanatökum í starfi sínu.
Stjórnendur stuðla að starfsánægju starfsfólks, hvetja til skilvirkra vinnubragða og veita markvissa endurgjöf. Þeir bera ábyrgð á viðhalda og efla eigin færni og tryggja að starfsfólk fái þá fræðslu og stuðning sem það þarf á að halda til að sinna störfum sínum.
6. Jafnrétti og lýðræði
Mosfellsbær samþykkti 19. september 2008, fyrst íslenskra sveitarfélaga að fylgja Evrópusáttmála um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum.
Lýðræðis- og mannréttindanefnd fer með jafnréttismál í umboðið bæjarstjórnar og gerir tillögur að endurskoðun ætlunarinnar sem fram fer á fjögurra ára fresti og framkvæmd hennar.
Jafnréttisfulltrúi starfar fyrir jafnréttisnefnd og vinnur að framkvæmd jafnréttismála í samstarfi við framkvæmdarstjóra sviða, forstöðumenn stofnana og aðra sem að málaflokknum koma.
Mosfellsbær leggur áherslu á fjölskylduvænt starfsumhverfi og launajafnrétti. Launastefna bæjarfélagsins kveður á um sanngjarna og réttláta launaröðun, jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf. Mosfellsbær hlaut jafnlaunavottun, samkvæmt lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í maí árið 2018.
Vinnustaðir Mosfellsbæjar endurspegla margbreytileika samfélagsins. Unnið er í anda fjölmenningar og jafnréttis þar sem reynsla og þekking alls starfsfólks fær notið sín óháð stöðu á vinnustað.
7. Upplýsingamiðlun
Áhersla er lögð á að upplýsingaflæði innan og milli stofnana bæjarins sé öflugt, skilvirkt og í stöðugri þróun þannig að það henti starfsfólki Mosfellsbæjar sem best.
Upplýsingum til starfsmanna er miðlað á sameiginlegum innri upplýsingavef; Workplace og er starfsfólk er hvatt til að skoða vefinn reglulega, helst daglega.
Stjórnendur bera ábyrgð á að nýtt starfsfólk fái nauðsynlegar upplýsingar og miðli reglulega upplýsingum til starfsfólks. Að sama skapi skal starfsfólk hafa frumkvæði í að afla sér nauðsynlegra upplýsinga til að geta leyst starf sitt af hendi eins og til er ætlast.
8. Vinnustaðurinn
Fjölskylduvæn og sveigjanleg mannauðsstefna styður við þá hugmyndafræði að Mosfellsbær sé eftirsóknarverður vinnustaður þar sem atvinna og fjölskylduábyrgð fara vel saman, vinnustaðnum til hagsbóta og starfsfólki til aukinna lífsgæða. Mannauðsstefnan endurspeglar þannig metnað sveitarfélagsins til að vera vinnuveitandi í fremstu röð.
Mosfellsbær leggur metnað í að starfsfólk upplifi jákvæðan og hvetjandi starfsanda, þar sem lögð er áhersla á heilbrigt starfsumhverfi í anda heilsueflandi samfélags.
9. Vinnuvernd
Stofnunum Mosfellsbæjar ber að stuðla að öruggum, hvetjandi, heilsusamlegu og aðlaðandi vinnuumhverfi sem tryggir árangur og vellíðan starfsfólks.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag þar sem lögð er áhersla á að starfsfólk skynji eigin ábyrgð á heilsu sinni og er það hvatt til að stunda reglulega hreyfingu og huga vel að andlegri og líkamlegri velferð sinni.
Sem lið í því býður Mosfellsbær starfsfólki árlega að taka þátt í heilsueflandi námskeiðum, heilsuleikum og heilsueflandi fyrirlestrum.
Öryggistrúnaðarmenn sem fylgjast með öryggismálum eru í stofnunum. Stofnanir með tíu eða fleiri starfsmenn velja sér öryggisvörð og þar er skipuð sérstök öryggisnefnd. Áhættumat stofnana kveður á um áætlanir um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti vinnustaðarins.
Einelti og áreitni er ekki liðið á vinnustöðum Mosfellsbæjar. Mosfellsbær hefur mótað stefnu um forvarnir og verklag gegn slíkri framkomu í garð starfsmanna. Forstöðumenn bera ábyrgð á því að starfsfólk þekki stefnuna og framfylgi henni.
10. Viðverustjórnun
Viðverustjórnun er góð leið til að auka starfsánægju, heilsu og vellíðan starfsfólks. Hún felur í sér reglubundið yfirlit yfir viðveru starfsfólks og fjarvistir. Ef fjarvistir eru umfram það sem eðlilegt má teljast er fylgt ákveðnu ferli sem felur í sér stuðning og fræðslu til starfsfólks, með jafnræði að leiðarljósi.
Lögð er áhersla á að standa vörð um heilsu starfsfólks og styðja við farsæla endurkomu þess í starf þegar heilsu er náð í kjölfar veikinda.
11. Rétt þjónusta
Markmið um þjónustu Mosfellsbæjar eru skýr og er kappkostað að veita rétta þjónustu. Þjónustuferlar eru hannaðir með þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi. Lögð er áhersla á skilvirka og aðgengilega þjónustu og að upplýsingatækni sé nýtt með snjöllum hætti.
- Persónuleg: Við veitum persónulega þjónustu og leitumst við að hún sé aðgengileg. Við leggjum áherslu á traust, alúð og gagnsæi í ákvarðanatöku.
- Skilvirk og snjöll: Við leggjum áherslu á skilvirk vinnubrögð, skýra verkferla sem eru í stöðugri endurskoðun.
12. Stolt samfélag
Samfélagið er fyrir alla óháð aldri eða samfélagsstöðu. Í Mosfellsbæ er hvatt til hreyfingar og heilsusamlegs lífstíls með því að styðja við frístundir, menningu og listir.
Byggð bæjarfélagsins fellur vel að landi, náttúru og hefur þannig jákvæð áhrif á bæjarbraginn. Umhverfisvitund samfélagsins er efld með fræðslu og góðu fordæmi.
- Eftirsótt: Við erum eftirsótt samfélag og spennandi valkostur fyrir tilvonandi Mosfellinga.
- Heilbrigð: Við erum heilsueflandi samfélag. Við hvetjum, eflum og styðjum íbúa til að stunda heilsusamlegan lífstíl.
- Sjálfbær: Við látum umhverfið okkur varða og sinnum málaflokknum af kostgæfni.
13. Starfslok
Mosfellsbær leitast við að skapa starfsfólki sínu möguleika á samfelldum starfsferli þar sem tekið er tillit til aldurs, breytinga á persónulegum högum, skertrar starfsgetu, aukinnar menntunar eða tímabundinna óska.
Uppsögn starfsmanns tekur gildi frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hún er lögð fram. Hún þarf að vera skrifleg, uppsagnarfrestur er þrír mánuðir nema viðkomandi kjarasamningur kveði á um annað.
Ef starfsmanni í föstu starfi er sagt upp störfum á viðkomandi rétt á skriflegum og málefnalegum rökstuðningi fyrir ástæðum uppsagnar. Uppsögn skal ávallt vera skrifleg og miðast við fyrsta dag næsta
mánaðar.
Faglega skal staðið að starfslokum starfsfólks Mosfellsbæjar og skulu þau framkvæmd í samræmi við þann kjarasamning sem við á hverju sinni. Mosfellsbær heimilar sveigjanleg starfslok sé það gagnkvæmur ávinningur fyrir starfsmann og viðkomandi stofnun. Sveigjanleg starfslok geta falið með sér tilfærslu í starfi eða minnkuðu starfshlutfalli eftir nánara samkomulagi, fram að starfslokum starfsmanns. Sveigjanleg starfslok eru ávallt háð samþykki forstöðumanns.