Jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar 2023-2026.
Jafnréttisáætlunin byggir á Stefnumótun Mosfellsbæjar 2017-2027 og gildum sveitarfélagsins sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja.
Jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar tekur einnig mið af lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 sem og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 um „jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, svo sem hvað varðar aðgengi að störfum, framgang í störf, starfsmenntun og starfsþjálfun.“
Velferðarnefnd hefur umsjón með mótun jafnréttisáætlunar Mosfellsbæjar og framkvæmd hennar í samvinnu við jafnréttisfulltrúa. Lögð er áhersla á að öll svið og stofnanir bæjarfélagsins framfylgi jafnréttisáætluninni með markvissum hætti.
Jafnréttisfulltrúi vinnur í samstarfi við bæjaryfirvöld, framkvæmdastjóra, forstöðumenn stofnana svo og aðra sem að jafnréttismálum koma. Jafnréttisfulltrúi skal veita stofnunum og starfsfólki bæjarins fræðslu og ráðgjöf um jafnréttismál sem og að hafa umsjón með úttektum og rannsóknum á stöðu og kjörum kynjanna í bæjarkerfinu.
Jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar er aðgengileg íbúum á vef bæjarins og kynnt öllum stjórnendum, starfsfólki og kjörnum fulltrúum með reglubundnum hætti.
Jafnréttisáætlun skal endurskoðuð í upphafi hvers kjörtímabils. Í kringum 18. september ár hvert skal jafnréttisdagur Mosfellsbæjar haldinn hátíðlegur, til heiðurs Helgu á Blikastöðum. Mosfellsbær auglýsir árlega eftir tilnefningum um einstakling/einstaklinga, stofnun, fyrirtæki, félagasamtök eða hópum sem hafa staðið sig best í að framfylgja jafnréttislögum og/eða Evrópusáttmálanum um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum og/eða jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar. Berist velferðarnefndinni vel rökstuddar tillögur innan tilsettra tímamarka, vinnur nefndin úr tillögunum og ef nefndin metur svo, veitir hún viðurkenningu því samkvæmt, á jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.
Jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar er þríþætt. Í fyrsta lagi tekur hún til samfélagsins Mosfellsbæjar og þjónustu við íbúa. Í öðru lagi tekur hún til menntunar og uppeldis þar sem horft er til skóla og leikskóla í bænum. Í þriðja lagi tekur hún til Mosfellsbæjar sem vinnustaðar og vinnuveitanda.
1. Samfélag og þjónusta
- Kynja- og jafnréttissjónarmið skulu samþætt inn í alla stefnumótun og ákvarðanatöku á vegum bæjarins.
- Hafa skal hlutföll kynja að leiðarljósi við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum bæjarins, í samræmi við 2. tl. 1. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
- Einstaklingum skal ekki mismunað í þjónustu og starfsemi bæjarins. Allir einstaklingar njóta sömu réttinda óháð kynferði, kynhneigð, þjóðerni, trúarbrögðum, fötlun, aldri o.s.frv.
- Unnið skal markvisst að því að auka jafnréttisvitund íbúa.
- Markvisst skal unnið gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundnu og kynferðislegu áreitni.
- Þau félagasamtök sem njóta reglubundinna styrkja frá sveitarfélaginu skulu skila inn kyngreindum upplýsingum með ársskýrslum.
- Tekið skal mið af kynjasjónarmiðum við skipulag og framkvæmd tómstundastarfs.
2. Menntun og uppeldi
- Taka skal tillit til ólíkra þarfa einstaklinga þegar kemur að skipulagi kennslu og framsetningu námsefnis.
- Fræðsla um jafnréttismál skal veitt á öllum skólastigum. Taka skal mið af einstaklingssjónarmiðum við skipulag og framkvæmd fræðslu- og frístundastarfs.
- Starfsfólk í öllum skólum og í frístund skal fá viðeigandi fræðslu og þjálfun til að búa nemendur undir þátttöku í jafnréttis- og lýðræðisþjóðfélagi.
- Markvisst skal unnið að afnámi staðalímynda og kynhlutverks.
- Þess skal gætt á öllum skólastigum að foreldrar barna hafi jafnan aðgang að upplýsingum er varðar barnið í samræmi við 52. gr. barnalaga, nr. 76/2003.
3. Vinnustaðurinn
- Stofnanir Mosfellsbæjar skulu á þriggja ára fresti leggja fram framkvæmdaáætlun sem segir til um hvernig viðkomandi stofnun ætli að útfæra jafnréttisáætlun sinnar stofnunar eða, ef það á við, jafnréttisáætlun Mosfellsbæjar.
- Framkvæmdaáætlun stofnunar skal yfirfarin reglubundið til að tryggja að markmiðin náist.
- Unnið skal markvisst að því að auka jafnréttisvitund starfsfólks og kjörinna fulltrúa.
- Markvisst skal unnið að afnámi kynbundis ofbeldis, kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni, eineltis- og annarrar áreitnishegðunar á vinnustöðum Mosfellsbæjar.
- Jafnréttis skal gætt í atvinnuauglýsingum hjá Mosfellsbæ.
- Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið þegar ráðið er í starf hjá Mosfellsbæ.
- Þess skal gætt að einstaklingar, óháð kyni, séu tryggð jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
- Gæta skal að starfsfólk, óháð kyni, njóti sömu möguleika til endur- og símenntunar sem og að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi.
- Tryggja skal að gott samræmi ríki milli vinnu og einkalífs og að starfsfólk, óháð kyni, geti sinnt daglegum störfum sínum á dagvinnutíma.
Samþykkt í velferðarnefnd 20. júní 2023.