Þrúður Hjelm, skólastjóri Krikaskóla, er handhafi jafnréttisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2019.
Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.
Frá því að Krikaskóli var stofnaður árið 2008 hefur Þrúður Hjelm unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna með því að ráða konur jafnt sem karla í leik- og grunnskólastörf. Hún hefur sérstaklega lagt sig fram við að fjölga karlmönnum í starfsmannahópi sínum en í dag starfa 16 karlmenn í Krikaskóla og eru þeir nú um það bil 25% af starfsfólki skólans. Að minnsta kosti einn karlkyns starfsmaður er starfandi í hverjum árgangi með tveggja til níu ára börnum og sinna karlar einnig íþrótta- og myndlistarkennslu.
Krikaskóli er með virka jafnréttis- og framkvæmdaáætlun sem fylgt er eftir og hún endurskoðuð með reglubundnum hætti. Þar kemur meðal annars fram að allir einstaklingar í Krikaskóla skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi Krikaskóla og benda á mikilvægi þess að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru á sviði jafnréttismála í samvinnu stjórnenda og starfsmanna.
Viðurkenningin var veitt á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar 19. september 2019.