Leikskólinn Reykjakot hlaut jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2009.
Reykjakot hefur undanfarið ár verið þátttakandi í samvinnuverkefninu „Jafnrétti í skólum“ fyrir hönd Mosfellsbæjar. Verkefnið Jafnrétti í skólum var unnið í samvinnu Jafnréttisstofu, Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Mosfellsbæjar, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Akureyrar og Reykjavíkurborgar.
Leikskólinn vann verkefni undir heitinu „Jafnrétti til upplýsinga. Pabbar þurfa líka að vita“. Aðalmarkmið verkefnisins var að allir foreldrar óháð kyni, þjóðfélagsstöðu, þjóðerni, litarhætti, móðurmáli og forræði barna hafi jafnan aðgang að upplýsingum í leikskólanum. Undirmarkmið voru að finna leiðir til að ná sem best til foreldra og mæta foreldrum með mismunandi aðferðum.
Reykjakot hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunar Mosfellsbæjar, meðal annars með því að koma á jafnrétti og jöfnum tækifærum allra foreldra til að fá upplýsingar frá leikskólanum. Reykjakot hefur þannig samþætt kynja- og jafnréttissjónarmið inn í samstarf leikskólans við foreldra, en slík samþætting er eitt af meginmarkmiðum jafnréttisstefnu Mosfellsbæjar.
Verkefni Reykjakots fól í sér heilmikla endurskoðun á upplýsingaflæði leikskólans til foreldra. Stærsti ávinningurinn er sá að með því að tryggja öllum foreldrum aðgengi að upplýsingum frá skólanum er verið að að auka gæði þjónustunnar við bæði börn og foreldra. Ennfremur eru kennarar skólans nú meðvitaðri um jafnrétti foreldra til upplýsinga, auk þess sem foreldrar fá aukna innsýn í leikskólastarfið og þar með fleiri tækifæri til að ræða við börnin um upplifanir þeirra í leikskólanum.
Gyða Vigfúsdóttir, leikskólastjóri í Reykjakoti veitti viðurkenningunni viðtöku úr hendi Jóhönnu B. Magnúsdóttur, formanni Fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar.