Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hlaut jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2013.
FMOS vinnur ötullega að jafnréttismálum bæði meðal nemenda sinna og starfsfólks. Vorið 2013 hófst kennsla í kynjafræði við skólann og í haust er sá áfangi kenndur í annað sinn við góðar undirtektir.
Kolbrún Þorsteinsdóttir formaður fjölskyldunefndar afhenti viðurkenninguna en með henni vill fjölskyldunefnd hvetja Framhaldsskólann í Mosfellsbæ áfram til góðra verka.
Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólastýra og Vibeke Svala Kristinsdóttir kennari tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans. Svala hefur verið í fararbroddi í jafnréttisfræðslu innan skólans og kennir hún valáfanga í kynjafræði sem hefur verið vel sóttur af nemendum.