Ásgarður handverkstæði hefur hlotið jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2010 fyrir að vinna ötullega að jafnréttismálum þannig að allir geti tekið þátt í starfseminni á jafnræðisgrundvelli, óháð kyni, fötlun eða öðru. Ásgarður er handverkstæði fyrir fólk með þroskahömlun og hefur starfað frá árinu 1983 og eru starfsmenn um þrjátíu talsins.
Kolbrún Þorsteinsdóttir, formaður fjölskyldunefndar, og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhentu starfsmönnum Ásgarðs viðurkenninguna.
Þetta var í þriðja sinn sem Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur en dagurinn er fæðingardagur Helgu Magnúsdóttur sem settist fyrst kvenna í stól oddvita í Mosfellsbæ fyrir um hálfri öld.