Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ í samvinnu við TM afhentu öllum börnum í 1. og 2. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar endurskinsvesti til eignar síðastliðinn þriðjudag.
Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ í samvinnu við TM afhentu öllum börnum í 1. og 2. bekk í grunnskólum Mosfellsbæjar endurskinsvesti til eignar síðastliðinn þriðjudag.
Endurskinsvestin eru afhent í tengslum við verkefnið Göngum í skólann og eru mikilvægur liður í öryggismálum yngstu grunnskólanemendanna sem eru að byrja að ganga, hjóla eða ferðast á annan virkan hátt í skólann.
Við biðlum til foreldra um að hvetja börnin til að nota virkan ferðamáta til og frá skóla, finna með þeim öruggustu leiðina og hjálpa þeim að muna eftir endurskinsvestinu til að auka á öryggi þeirra í umferðinni í vetur.
Okkur er öllum nauðsynlegt að vera vel merkt í umferðinni nú þegar skyggja fer. Gangi barn með endurskin eru miklu meiri líkur á að það sjáist en hafi það ekki endurskin. Þetta er mikilvæg forvörn og getur bjargað mannslífi.
Það er á ábyrgð foreldra að setja endurskin á börn og til að auðvelda foreldrum eru vestin gefin og krakkarnir ættu að geta notað þau í tvö ár hið minnsta. Það er góð regla að setja skólabarnið í vestið áður en skólataskan er sett á bakið. Hvoru tveggja á að vera jafnsjálfsagt.
Öryggismál eru stór hluti af því að byggja upp Heilsueflandi samfélag hér í bænum og vonast Heilsuvin og Mosfellsbær, sem standa að verkefninu, eftir því að vestin stuðli að því að yngstu nemendurnir verði vel upplýstir þegar skyggja fer.
Tökum höndum saman, aukum öryggi barnanna okkar í umferðinni – Verum upplýst!