Um þessar mundir er unnið markvisst að bættum nettengingum í Mosfellsbæ. Þess vegna er jarðrask víða um bæ og starfsmenn að leggjalagnir í jörðu.
Míla er langt komin með uppbyggingu á Ljósveitu. Á vormánuðum gerði Míla ehf. og Mosfellsbær með sér samkomulag um uppbyggingu á opnu aðgangsneti, Ljósveitu, í bæjarfélaginu. Vinna er nú þegar hafin í Töngum og Holtum, en auk þess er á áætlun að tengja Löndin, Ásahverfið og Skálatúnshverfið á þessu ári. Á fyrri hluta næsta árs er síðan áætlað að tengja Reykjahverfið.
Ýmis önnur hverfi í Mosfellsbæ hafa þegar aðgengi að Ljósveitu. Þar má nefna Leirvogstunguna, Krikahverfið og Teigana. Hafist veður handa við lagninu Ljósveitu í Mosfellsdal og í Túnunum í byrjun næsta árs og verður þeirri vinnu lokið vorið 2014.
„Með aðgangi aðLjósveitunni fá heimilin möguleika á verulega auknum gagnaflutningshraða. Aukinn gagnaflutningshraði Ljósveitu Mílu býður uppá móttöku á allt að fimm háskerpu sjónvarpsstöðvum á sama tíma. Hraði og öryggi tengingarinnar skapar kjöraðstæður til fjarvinnu, afþreyingar og samskipta. Hraði Ljósveitunnar er það mikill að streymi í tölvu hefur ekki áhrif á móttöku sjónvarpsefnis eða nettengdrar leikjatölvu og sjallsíma, svo dæmi séu tekin“ segir Eva Magnúsdóttir, forstöðumaður þjónustu hjá Mílu. „Hraðar og öruggar tengingar eru orðin stór hluti af lífsgæðum nútímafólks og notendur Ljósveitunnar finna sannarlega fyrir auknum hraða, því bæði upp- og niðurhal taka mun skemmri tíma en hefðbundin ASDL tenging ræður við“, bætir Eva við.
650 heimili á vestursvæði fá ljósleiðara
Gagnaveita Reykjavíkur (GR) vinnur nú að tengingu heimila í Mosfellsbæ við ljósleiðarakerfi GR. Um er að ræða 650 heimili á vestursvæði bæjarins. Heimili á þessu svæði hafa þegar fengið heimsókn frá fulltrúa GR þar sem bæði áhugi íbúa var kannaður og nauðsynlegra heimilda vegna framkvæmda um einkalóð aflað.