Búsetu- og þjónustudeild Mosfellsbæjar, ásamt þremur búsetukjörnum í Mosfellsbæ og Félagsstarfinu á Eirhömum eru að innleiða þjónandi leiðsögn (e. “gentle teaching”).
Búsetu- og þjónustudeild Mosfellsbæjar, ásamt þremur búsetukjörnum í Mosfellsbæ og Félagsstarfinu á Eirhömum eru að innleiða þjónandi leiðsögn (e. “gentle teaching”). Hugmyndafræðin byggir á grunnhugmyndum um gagnkvæm tengsl og að öll séum við háð hvert öðru á einn eða annan hátt. Þjónandi leiðsögn gerir kröfur til þess að starfsmaðurinn horfi inn á við og nýti það góða sem býr innra með hverjum manni. Að hann finni leiðir til að gefa af sér hlýju og umhyggju í garð annarra.
Þjónandi leiðsögn byggir á fjórum grunnstoðum: að upplifa sig örugga(n), að fá umhyggju og kærleika,að veita umhyggju og kærleika og að vera þátttakandi. Verkfæri hugmyndafræðinnar eru fjögur: hendur okkar, orð, augu og nærvera. Þannig nýtir starfsmaðurinn sjálfan sig til þess að sýna umhyggju og kærleika í garð þeirra sem hann vinnur með. Það gerir hann t.d. með því að horfa blíðlega, tala rólega, snerta af nærgætni, og vera til staðar, hér og nú.
16 manna hópur var í tvo daga, 19. og 20. janúar, í þjálfun hjá Kristni Má Torfasyni og Arne Friðrik Karlssyni.