Fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þann 26. október sl. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur næsta árs verði 318 m.kr. Framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum er áætlað að nemi 1.521 m.kr. og að íbúum fjölgi um 6% milli ára.
Fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar þann 26. október sl. Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur næsta árs verði 318 m.kr. Framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum er áætlað að nemi 1.521 m.kr. og að íbúum fjölgi um 6% milli ára. Gert er ráð fyrir því að tekjur sveitarfélagsins nemi 10.550 m.kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 9.555 m.kr. og fjármagnsliðir 650 m.kr.
Skuldir sem hlutfall af tekjum halda áfram að lækka og verða 99,4% í árslok 2018 sem er umtalsvert neðar en hið lögbundna 150% mark sem áskilið er samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Þjónusta efld
Áfram verður unnið að því að auka þjónustu við 12-18 mánaða börn og plássum fjölgað um 20 á þeim ungbarnadeildum sem stofnaðar voru við tvo leikskóla bæjarins í ár. Lagt er til að frístundaávísun hækki um 23% og gjaldskrár leikskóla miðist við 15 mánaða aldur. Þá verði unnið að því að skapa enn betri aðstöðu í skólum m.a. með því að efla tölvukost og aðra aðstöðu í leik- og grunnskólum. Einnig er lagt til að fjárhagsaðstoð hækki um 6,5% og sérstakur húsnæðisstuðningur aukist.
Fjölnota íþróttahús byggt að Varmá
Stærsta einstaka framkvæmdin á árinu 2018 er bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að um 1.200 m.kr. verði varið til þeirrar byggingar á árinu. Miðað er við að fyrsti áfangi skólans verði tekin í notkun í byrjun árs 2019. Jafnframt er gert ráð fyrir því að vinna við undirbúning annars áfanga Helgafellsskóla hefjist á næsta ári. Þá er stefnt að því að hefja framkvæmdir við fjölnota íþróttahús á árinu 2018 og að þeim ljúki á fyrri hluta árs 2019. Átak verður gert í endurnýjun gangstétta í eldri hverfum og lagt til að framlög til viðhalds húsa og lóða bæjarins aukist um fjórðung. Loks er lagt til að farið verði í aðgerðir til að hefta útbreiðslu ágengra plantna og unnið að mótun umhverfisstefnu, samgöngustefnu og forvarnarstefnu.
Lækkun gjalda
Álagningarhlutföll fasteignagjalda lækka um 11% og almennt er ekki gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum hjá Mosfellsbæ og munu þær því lækka að raungildi þriðja árið í röð. Lagt er til að framlög til afsláttar á fasteignagjöldum til tekjulægri eldri borgara hækki um fjórðung. Gert er ráð fyrir hækkun sorphirðugjalds um 1.900 kr. milli ára einkum vegna magnaukningar á sorpi.
Fjárhagsáætluninni hefur nú verið vísað til umfjöllunar í nefndum bæjarins en gert er ráð fyrir því að seinni umræða fjárhagsáætlunar fari fram miðvikudaginn 29. nóvember næstkomandi.