Næstkomandi sunnudag hefst Kærleiksvika í Mosfellsbæ og upphaf vikunnarverður á Miðbæjartorgi Mosfellinga þar sem stefnt er að því að setjaheimsmet í hópknúsi. Að því loknu verður Kærleikslagið 2010 frumflutt.
Næstkomandi sunnudag hefst Kærleiksvika í Mosfellsbæ og upphaf vikunnar verður á Miðbæjartorgi Mosfellinga þar sem stefnt er að því að setja heimsmet í hópknúsi. Að því loknu verður Kærleikslagið 2010 frumflutt. Lagið samdi Biggi í Gildrunni við texta Ingibjargar Bjarnadóttur frá Gnúpufelli.
Kærleiksvikan verður haldin í Mosfellsbæ vikuna 14. -21. febrúar. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er haldin. Kærleiksvika á að verða vika þar sem kærleikurinn verður ofar öllu hér í Mosfellsbæ.
Markmið vikunnar er að hver einasti bæjarbúi finni fyrir kærleik í sinn garð og gefi af sér kærleik. Þetta gæti falist í hrósi, faðmi, brosi, fallegum skilaboðum eða einhverju öðru uppbyggilegu og skemmtilegu.
Kærleiksvikan er sjálfsprottin – skipulögð af kærleiksríkum Mosfellingum sem er ekki tengt neinum einum samtökum eða félagsskap. Mosfellsbær hefur hins vegar veitt Kærleiksvikunni stuðning.
Dagskrá Kærleiksvikunnar hefst á sunnudag kl. 15 þegar tilraun verður gerð til að slá heimsmet í hópknúsi. Fulltrúi Heimsmetabókar Guinness verður á staðnum til að votta heimsmetið.
Að loknu knúsi verður hægt að fá sér kaffi og kakó í Kjarna þar sem Kærleikslagið 2010 verður frumflutt. Höfundur þess er Biggi í Gildrunni og flytur söngkonan Stefanía Svavarsdóttir lagið. Einnig munu Leikskólakórinn og Álafosskórinn koma fram.
Hugmyndin er að sem flest félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki, hópar og einstaklingar taki þátt í vikunni með sínum hætti. Við vonum að vikan verði full af kærleiksríkum viðburðum, verkefnum og uppákomum. Enn er hægt að bæta við viðburðum á Kærleiksvikunni. Þeir sem vilja standa fyrir viðburðum er bent á að hafa samband við undirbúningshópinn með því að senda tölvupóst á kaerleiksvika[hja]gmail.com.
Dagskrá vikunnar verður kynnt á www.kaerleikur.blog.is og á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is/kaerleiksvika. Kærleiksvikan er einnig á Facebook.