Haustið 2017 hófst vinna við að undirbúa sókn í upplýsinga- og tæknimálum í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar. Sú vinna byggir á niðurstöðum vinnu með kennurum vorið 2017 sem kölluð hefur verið Vegvísirinn.
Haustið 2017 hófst vinna við að undirbúa sókn í upplýsinga- og tæknimálum í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar. Sú vinna byggir á niðurstöðum vinnu með kennurum vorið 2017 sem kölluð hefur verið Vegvísirinn. Vegvísirinn er eitt af leiðarljósum fræðslu- og frístundasviðs í þeirri umbótavinnu á starfsumhverfi grunnskólanna sem nú stendur yfir. Í Vegvísinum koma skýrt fram óskir frá kennurum um endurskoðun fyrirkomulags á upplýsinga- og tæknimála skólanna.
Þann 23. janúar sl. voru stigin fyrstu skrefin í yfirstandandi sókn til eflingar upplýsinga- og tæknimála í skólum bæjarins þegar skólunum voru afhentar bæði fartölvur og spjaldtölvur. Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2018 verður 40 milljónum varið til þessa verkefnis.
Þrjár stoðir verkefnisins
Verkefnið byggir á þrem stoðum. Í fyrsta lagi eflingu tæknibúnaðar skólabygginganna. Í öðru lagi að bæta aðbúnað kennara og nemenda á svið upplýsinga- og tæknimála. Og í þriðja lagi að veita stuðning við innleiðingu á fjölbreyttari kennsluháttum.
„Meginforsenda þess að upplýsinga- og tæknimál séu ofarlega á baugi í skólastarfi er að starfsmenn skólanna hafi greiðan aðgang að vinnutölvum og að vinnuumhverfið sé þannig úr garði gert að tæknimál skólanna styðji við breytta kennsluhætti og kröfur nútímans.“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Mótun upplýsinga- og tæknistefnu í leik- og grunnskólum Mosfellsbæjar
Það er stefna bæjaryfirvalda að koma grunnskólum í Mosfellsbæjar í fremstu röð á sviði upplýsinga- og tæknimála. Í samstarfi við skólana verður áfram unnið að mótun stefnu og framtíðarsýnar til næstu fimm ára á sviði upplýsinga- og tæknimála. Í kjölfarið verður unnin aðgerðaráætlun til tveggja ára þar sem meðal annar verður fjallað um kostnað og útskiptingu á tæknibúnaði, þróunar- og nýbreytniverkefni á sviði upplýsinga- og tæknimála, samvinnu skóla og fræðslu og ráðgjöf til kennara og nemenda.
„Það eru spennandi tímar framundan í tækniheiminum og það fer enginn í grafgötur með það að þekking á því sviði er mikilvægur þáttur í að gera skólum mögulegt að stefna ótrauðir inn í framtíðina.“ segir Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar.