Föstudaginn 3. júní, var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Alls verða 30 hjúkrunarrými í byggingunni sem verður 2250 fermetrar að stærð á tveimur hæðum.
Föstudaginn 3. júní, var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Alls verða 30 hjúkrunarrými í byggingunni sem verður 2250 fermetrar að stærð á tveimur hæðum.
Hjúkrunarheimilið verður fjármagnað með svokallaðri leiguleið sem felur í sér að Mosfellsbær fjármagnar byggingu hjúkrunarheimilis og ríkið greiðir Mosfellsbæ sem nemur 85% af afborgun láni til byggingarinnar í formi leigu til 40 ára. Auk þess greiði ríkið rekstaraðila daggjöld eins og þau eru hverju sinni vegna reksturs heimilisins.
Eir, hjúkrunarheimili, mun reka hið nýja hjúkrunarheimili en félagið rekur nú þegar öryggisíbúðir í Mosfellsbæ og þjónustumiðstöð fyrir eldra fólk. Eir sér jafnframt um félagslega heimaþjónustu fyrir Mosfellsbæ.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir: „Með byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ er mikilvægum áfanga í uppbyggingu á þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar náð. Mosfellingar hafa barist fyrir því allt frá árinu 1998 að fá samþykki rískisvaldsins um heimild til byggingar og rekstur hjúkrunarheimilis og er þetta því mikil gleðistund.“
Samstarf Mosfellsbæjar og Eirar nær aftur til ársins 2005 er aðilarnir gerðu með sér rammasamning um uppbyggingu og rekstur þjónustu við aldraða í Mosfellsbæ. Markmið samstarfsins er að bjóða eldra fólki í bæjarfélaginu valkost þar sem öryggi þeirra er tryggt af fremsta megni og veita þeim þjónustu sem gerir þeim kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Bygging hjúkrunarheimilis, þar sem innangengt er í íbúðir og þjónustumiðstöð, auðvelda mökum og félögum samvistir við þá sem þurfa á hjúkrunarheimilisdvöl að halda.
Eir byggði 38 öryggisíbúðir í Mosfellsbæ sem teknar voru í notkun í apríl 2007. Íbúðirnar voru til viðbótar 20 íbúðum aldraðra sem fyrir voru í bæjarfélaginu. Eir, hjúkrunarheimili festi kaup á eldri íbúðum og húsnæði þjónustumiðstöðvarinnar í lok árs 2009.
Fyrir dyrum standa ennfremur gagngerar endurbætur og uppbygging á aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara í Mosfellsbæ, dagvist og þjónustumiðstöð.