Stórstúka Íslands keypti jörðina Skálatún í Mosfellssveit árið 1953. Það var svo 30. janúar árið 1954 sem sjálfseignarstofnunin Skálatúnsheimilið var stofnuð. Þann dag fluttu fyrstu þrjú börnin á Barnaheimili Templara við Skálatún eins og það hét þá og ætlunin var að þar myndu búa 17 börn og unglingar.
Frá þessum tíma og til dagsins í dag hafa átt sér stað miklar breytingar á húsnæði og starfsemi Skálatúns auk þess sem að starfsemin hefur fylgt þeirri þróun sem á sér stað í málefnum fatlaðra. Reistar hafa verið nýjar byggingar og í dag eru fimm herbergjasambýli og tvö hús með samtals tíu íbúðum. Nú eru 37 íbúar búsettir í Skálatúni. Þá er einnig á staðnum dagþjónusta, sundlaug, vinnustofur og skrifstofur.
Mosfellsbær og Skálatún gerðu með sér þjónustusamning árið 2012 í kjölfar tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Heimilisfólk á Skálatúni og starfsemin þar hefur auðgað mannlíf í Mosfellsbæ og saga þess er óaðskiljanlegur hluti af sögu bæjarins.
Mosfellsbær óskar Skálatúnsheimilinu innilega til hamingju með daginn.