Í tengslum við samning á milli Mosfellsbæjar, Skálatúns og Jöfnunarsjóðs um þjónustu Mosfellsbæjar við 33 íbúa Skálatúns var jafnframt samþykkt að stofnuð yrði sjálfseignastofnun um rekstur fasteigna Skálatúns.
Mennta- og barnamálaráðuneytið skipaði tvo fulltrúa í sjálfseignastofnunina, þau Harald Líndal Haraldsson sem jafnframt er formaður og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Mosfellsbær tilefndi Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra í stjórnina.
Framsal lóðarréttinda til sjálfseignastofnunarinnar frá IOGT, sem rak Skálatún um áratuga skeið var bundið þeirri kvöð að framtíðaruppbygging á svæðinu verði einungis í þágu hagsmuna barna og fjölskyldna auk þess sem frekari takmarkanir eru á framsali landsins. Sú uppbygging sem stefnt er að felur í sér að aðilar sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu, stofnanir ríkisins, félagasamtök og aðrir aðilar verði staðsettir á sama svæðinu. Markmiðið með því er að auka samstarf og samtal milli aðila, samnýta yfirbyggingu, lækka rekstrarkostnað og bæta aðgengi fyrir börn og fjölskyldur að þjónustu mismunandi aðila á sama stað. Þá stendur einnig til að leita leiða til þess að veita aukna og samþætta þjónustu til þeirra barna sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á miklum stuðningi að halda.
Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra eru sólarlagsákvæði í samningunum þess efnis að núverandi íbúar á Skálatúni geti búið áfram í þeim búsetukjörnum sem hafa verið uppbyggðir, þrátt fyrir undirbúning að framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
Á myndinn má sjá stjórn sjálfseignarstofnunarinnar þau Harald Líndal Haraldsson, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Regínu Ásvaldsdóttur þegar þau heimsóttu allar einingar á Skálatúni í fylgd með stjórnendum á velferðarsviði Mosfellsbæjar.
Samningar sem voru undirritaðir vegna Skálatúns:
- ibuagatt.mos.isTillaga - þjónusta við íbúa Skálatúns til framtíðar og samningar um nýtingu lands að Skálatúni
- ibuagatt.mos.isSamkomulag milli Skálatúns, Mosfellsbæjar og Jöfnunarsjóðs um yfirtöku Mosfellsbæjar á þjónustu við íbúa Skálatúns - undirritað eintak
- ibuagatt.mos.isSamkomulag milli Skálatúns-ses í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna, Mosfellsbæjar og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga - undirritað eintak
- ibuagatt.mos.isViljayfirlýsing um uppbyggingu í málefnum barna - undirritað eintak
- stjornartidindi.isSkipulagsskrá fyrir Skálatún – sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna
- ibuagatt.mos.isSamkomulag ses í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna og Skálatúns