Eva Marín Einarsdóttir Nielsen, sex ára, bjargaði lífi móður sinnar og systur með hárréttum viðbrögðum þegar eldur kom upp í íbúð þeirra í Mosfellsbæ fyrir nokkrum dögum. Eva Marín lærði viðbrögðin í leikskólanum sínum, Hlíð.
Eva Marín Einarsdóttir Nielsen, sex ára, bjargaði lífi móður sinnar og systur með hárréttum viðbrögðum þegar eldur kom upp í íbúð þeirra í Mosfellsbæ fyrir nokkrum dögum. Eva Marín lærði viðbrögðin í leikskólanum sínum, Hlíð.
Móðir Evu Marínar var sofandi ásamt nýfæddri dóttur sinni þegar eldur kom upp á eldavélinni. Þegar Eva Marín kom heim hafði reykurinn breiðst út um íbúðina. Þrátt fyrir að bregða talsvert sýndi Eva Marín mikla röggsemi og hugrekki þegar hún skreið eftir gólfinu inn í herbergi móður sinnar og vakti hana. Hún skreið síðan sömu leið til baka, fram á stigagang og kallaði á hjálp.
Haustið 2007 hóf Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins markvissar heimsóknir í leikskólana á svæðinu til þess að fræða leikskólabörn og starfsmenn skólanna um forvarnir og viðbrögð við eldsvoða. Með í för eru Logi og Glóð, slökkviliðsálfarnir, sem hjálpa slökkviliðsmönnum að kenna börnunum. Leikskóli Evu Marínar, Hlíð í Mosfellsbæ, fékk slökkviliðsmenn í heimsókn í vetur og segir Eva Marín að það hafi verið skemmtileg heimsókn og að þá hafi hún lært hvað hún ætti að gera þegar eldur kemur upp.
Það var sérstaklega ánægjulegt fyrir starfsmenn slökkviliðsins að frétta af afreki Evu Marínar, því það sýnir og sannar gildi forvarna og eflir liðið til frekari dáða á þeim vettvangi.
Á myndinni eru Eva Marín og Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri sem heimsótti Evu og fjölskyldu hennar, og hrósaði fyrir hetjudáðina.