Mosfellsbær og Íslenska Gámafélagið hafa undirritað samning til þriggja ára um að Íslenska gámafélagið setji upp og reki þrjár hleðslustöðvar sem geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi.
Mosfellsbær og Íslenska Gámafélagið hafa undirritað samning til þriggja ára um að Íslenska gámafélagið setji upp og reki þrjár hleðslustöðvar sem geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi. Fyrst sinn er áætluð staðsetning stöðva við Íþróttamiðstöð Lágafelli, Íþróttamiðstöð Varmá og Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Uppsetning rafhleðslustöðvanna fer af stað innan mánaðar og áætluð verklok eru í janúar á næsta ári. Stöðvarnar verða merktar Mosfellsbæ og Ísorku, sem er vörumerki í eigu Íslenska gámafélagsins. Þær verða snúrulausar eru af gerðinni Circontrol eVolve og eru 2 x 22kW AC.
,,Við höfum lagt mikla vinnu og metnað í að bjóða einungis hágæða búnað og frábærar lausnir til að miðla upplýsingum til rafbíla eigenda í gegnum Ísorku,“ segir Sigurður Ástgeirsson, verkefnastjóri orkulausna hjá Íslenska gámafélaginu og lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði Mosfellsbæjar við að koma til móts við rafbílaeigendur. ,,Þetta eru fyrstu skref í upphafi byltingar í orkuskipti í samgöngum,“ bætir hann við.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar er ánægður með samstarfið. „Mosfellsbær hefur lagt áherslu á umhverfismál og verið í fararbroddi þegar kemur að náttúruvernd og sjálfbærni. Við viljum taka virkan þátt í orkuskiptum í samgöngum. Markmiðið er að íbúum Mosfellsbæjar verði gert kleift að velja umhverfisvænan samgöngumáta meðal annars með því að auðvelda aðgengi að hleðslustöðvum.“