Hljómsveitin Pollapönk heldur tónleika fyrir leik- og grunnskólabörnMosfellsbæjar á morgun, föstudaginn 17. september, kl 10:00 íÁlafosskvos. Tónleikarnir eru í boði MúsMos og Pollapönks.
Hljómsveitin Pollapönk heldur tónleika fyrir leik- og grunnskólabörn Mosfellsbæjar á morgun, föstudaginn 17. september, kl 10:00 í Álafosskvos. Tónleikarnir eru í boði MúsMos og Pollapönks.
Pollapönk er hugarfóstur leikskólakennaranna Heiðars og Halla, oft kennda við hljómsveitina Botnleðju.Geisladiskurinn Pollapönk (2006) var útskriftarverkefni þeirra við Kennaraháskóla Íslands en skemmst er frá því að segja að sá diskur féll í góðan jarðveg bæði hjá börnum og fullorðnum. Árið 2007 barst þeim félögum liðsstyrkur en Arnar Gíslason og Guðni Finnsson úr hljómsveitunum Ensími og Dr.Spock gengu til liðs við þá. Nýverið kom út nýr geisladiskur, Meira pollapönk. Á honum má finna lög á borð við “113 vælubíllinn”, “Þór og Jón eru hjón”, “Pönkafinn” o.fl. Í lögunum er tekið á málum sem bæði börn og fullorðnir velta fyrir sér.
Markmiðið með Pollapönk er að búa til tónlist og texta sem bæði börn og fullorðnir geta haft gaman af. Einnig að skapa hljómsveit fyrir börn sem fylgt er eftir af sama metnaði og ef um hljómsveit fyrir fullorðna væri að ræða.
Tilgangur tónleikanna er að leyfa börnum að upplifa og fá að njóta tónlistar á þennan hátt.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.