Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á 1361. fundi sínum sem haldinn var fimmtudaginn 19. júlí 2018 persónuverndarstefnu Mosfellsbæjar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr.90/2018.
Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á 1361. fundi sínum sem haldinn var fimmtudaginn 19. júlí 2018 persónuverndarstefnu Mosfellsbæjar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Mosfellsbær einsetur sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi við vinnslu persónuupplýsinga. Persónuverndarstefna Mosfellsbæjar lýsir vinnslu Mosfellsbæjar á persónuupplýsingum. Mosfellsbær mun auk þess leitast við að veita þeim einstaklingum sem vinnsla persónuupplýsingar nær yfir nánari fræðslu um meðferð persónuupplýsinga. Með stefnunni leggur Mosfellsbær áherslu á mikilvægi persónuverndar við alla vinnslu á persónuupplýsingum eins og þær eru skilgreindar í lögum.
Stefnan gildir um sérhverja vinnslu persónuupplýsinga í skilningi l. 90/2018, í allri starfsemi á vegum Mosfellsbæjar, þ.m.t. stofnana og nefnda á vegum Mosfellsbæjar sem og í meðferð starfsmanna, kjörinna fulltrúa og nefndarmanna á persónuupplýsingum.
Persónuupplýsingar í skilningi persónuverndarstefnu þessarar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling, þ.e. upplýsingar sem hægt er að rekja beint eða óbeint til ákveðins einstaklings. Upplýsingar sem eru ópersónugreinanlegar teljast ekki persónuupplýsingar. Um nánari skilgreiningu á því hvað teljist persónuupplýsingar og hvað teljist viðkvæmar persónuupplýsingar vísast til 2. og 3. tl. 3. gr. l. 90/2018. Undir hugtakið vinnsla fellur öll notkun og meðferð persónuupplýsinga, s.s. söfnun, skráning, varðveisla og eyðing, sbr. 4. tl. 3. gr. l. 90/2018.