9. febrúar opnaði Irene Ósk Bermudez sýningu sína ,,Grow Lucky” í Listasal Mosfellsbæjar. Irene Ósk Bermudez vinnur myndbandsverk, skúlptúra, hljóðverk og teikningar auk innsetninga þar sem hún tvinnar saman þessa miðla.
9. febrúar opnaði Irene Ósk Bermudez sýningu sína ,,Grow Lucky” í Listasal Mosfellsbæjar.
Irene Ósk Bermudez lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2007 og MFA gráðu frá School of Visual Arts í New York 2010. Hún hefur sýnt verk sín hér á landi og erlendis, tekið þátt í fjölda samsýninga, listahátíða og viðburða. Má þar meðal annars nefna Villa Reykjavík, Sequences Real Time Art Festival 2011, Grasrót IX og Echo of the North.
Irene Ósk Bermudez vinnur myndbandsverk, skúlptúra, hljóðverk og teikningar auk innsetninga þar sem hún tvinnar saman þessa miðla. Í verkum hennar birtist oftar en ekki veröld sem virðist einhvers staðar á mörkum veruleika og skáldskapar; þar ríkir ástand sem minnir í senn á drauma, ævintýri og framtíðarskáldskap og mætti líkja við ferðalag um undirmeðvitundina.
Líkaminn, skynjun og líkamlegar upplifanir eru þættir sem Irene fæst við í verkum sínum, sérstaklega einhvers konar misræmi milli skynjunar eða líkamlegrar upplifunar og ytra umhverfis, líkt og upplifun af sjóriðu eftir bátsferð, lengi eftir að stigið er á fast land. Hún beinir sjónum sínum að þeirri fjarveru sem einkennir þetta ástand, fjarlægðinni sem myndast milli okkar og umheimsins þegar skynjun eða upplifun er ekki í samræmi við ytri aðstæður og getur valdið því að okkur finnst líkaminn vera á undan eða eftir ytri kringumstæðum í tíma og rúmi