Nú eru grunnskólar Mosfellsbæjar að hefja störf að nýju og í upphafi þessa skólaárs eru rúmlega 1500 börn að arka út á götur bæjarins á leið í skóla. Af þeim eru 170 börn að stíga sín fyrstu skref í skólagöngu og því að feta sín fyrstu skref í umferðinni og oft ein síns liðs. Gera má ráð fyrir mikilli umferð í kringum skólana fyrstu daganna er foreldrar skjótast úr vinnu á skólasetningar og minnum við því ökumenn á að virða hraðatakmarkanir
Nú eru grunnskólar Mosfellsbæjar að hefja störf að nýju og í upphafi þessa skólaárs eru rúmlega 1500 börn að arka út á götur bæjarins á leið í skóla. Af þeim eru 170 börn að stíga sín fyrstu skref í skólagöngu og því að feta sín fyrstu skref í umferðinni og oft ein síns liðs.
Gera má ráð fyrir mikilli umferð í kringum skólana fyrstu daganna er foreldrar skjótast úr vinnu á skólasetningar og minnum við því ökumenn á að virða hraðatakmarkanir, sýna varkárni og stoppa fyrir gangandi umferð.
Mosfellsbær beinir þeim tilmælum til ökumanna að fara að öllu með gát og gæta sérstaklega að litlum einstaklingum sem eru að læra á umferðina. Mosfellsbær hvetur nemendur til að ganga til skóla, enda er það bæði holl og góð hreyfing auk þess sem það dregur úr umferð við skólana.
Þessi heilræði til bílstjóra er að finna í pistli sem birtist á heimasíðu tryggingafélagsins VÍS. „Best er að barnið gangi í skólann ef þess er kostur, en þá er mikilvægt að fara öruggustu leiðina. Hana þarf að kynna fyrir barninu og hafa í huga að stysta leiðin er ekki alltaf sú besta. Brýna þarf fyrir barninu að stoppa áður en farið er yfir götu, líta vel til beggja hliða, hlusta og nota gangbraut ef unnt er. Fræða þarf barnið um að ekki sé víst að ökumaður sjái það þó svo að það sjái bílinn og að ekki sé gott að temja sér að ganga yfir bílastæði skólans.
Ef barni er ekið í skólann þá á það að vera í sérstökum öryggisbúnaði umfram bílbelti eins og bílsessu, með eða án baks, þar til það hefur náð 36 kg þyngd. Barnið má ekki sitja fyrir framan loftpúða fyrr en það hefur náð 150 sm hæð og jafnan er það best varið í aftursætinu þar til það er orðið 12 ára. Þegar barnið fer úr bílnum er alltaf öruggast að fara út gangstéttar megin, en ekki út í umferðina,“ segir ennfremur meðal annars í pistlinum.