Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Á fundi bæjarráðs þann 14. febrúar var samþykkt að hefja vinnu við verkefnið Okkar Mosó 2019.
Verkefnið er samráðsverkefni íbúa og Mosfellsbæjar um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Okkar Mosó 2019 er liður í að efla aðkomu bæjarbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku um málefni bæjarins en aðrir liðir hafa falist í opnum fundum nefnda og könnunum á viðhorfi íbúa.
Þá má gera ráð fyrir því að hin nýja lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar taki þátt í að þróa áfram viðfangsefni á sviði íbúalýðræðis og þegar við á umbætur á sviði lýðræðismála í bænum til samræmis við áherslur í lýðræðisstefnu hvers tíma.
Í Okkar Mosó 2019 verður miðað við að þær nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni sem hljóta brautargengi á meðal íbúa eigi sér stað bæði á árinu 2019 og 2020 og að til þeirra verði varið 35 milljónum króna.
Verkefnið skiptist í fjóra áfanga, þ.e. hugmyndasöfnun, umræðu um hugmyndir og úrvinnslu þeirra, kosningar og loks framkvæmd.