Fyrsta skóflustungan að nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ var tekin þriðjudaginn 11. júní. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tók skóflustunguna ásamt fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem standa að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS). Byggðaþróun undanfarinna ára hefur stækkað þjónustusvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) töluvert og gert það að verkum að útkallstíminn hefur ekki verið nægilega góður á tilteknum svæðum
Fyrsta skóflustungan að nýrri slökkvistöð við Skarhólabraut 1 í Mosfellsbæ var tekin þriðjudaginn 11. júní. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri tók skóflustunguna ásamt fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem standa að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS).
Byggðaþróun undanfarinna ára hefur stækkað þjónustusvæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) töluvert og gert það að verkum að útkallstíminn hefur ekki verið nægilega góður á tilteknum svæðum. Með byggingu nýrrar stöðvar í Mosfellsbæ styttist viðbragðstími slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem gerir sveitarfélögunum kleift að veita betri grunnþjónustu. Stöðin er því mjög vel staðsett m.t.t. útkalla.
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður í kringum 2000 fermetrar að stærð með tvær hæðir og kjallara. Bæði er gert ráð fyrir slökkvi- og sjúkrabílum en byrjað verður á því að byggja þann hluta sem ætlaður er fyrir slökkvibílana á meðan ekki hefur verið skrifað undir samning við ríkið um sjúkraflutninga.
Jarðvegsframkvæmdir eru þegar hafnar en áætlað er að húsið verði tekið í notkun í nóvember 2014.
Boðið var upp á kaffi í Lágafellslaug að athöfn lokinni en það var vel við hæfi þar sem starfsemi laugarinnar þarf að geta treyst á stuttan viðbragðstíma slökkvi- og sjúkrabíla.