Heilsugæsla Mosfellsumdæmis og Sunnubær ehf. hafa skrifað undir samning um nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ. Hún mun rísa í Sunnukrika neðst í Krikahverfi og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum.
Heilsugæsla Mosfellsumdæmis og Sunnubær ehf. hafa skrifað undir samning um nýja heilsugæslustöð í Mosfellsbæ. Hún mun rísa í Sunnukrika neðst í Krikahverfi og munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði tilbúið í lok ársins 2020. Þar verður einnig gert ráð fyrir apóteki og annarri heilsutengdri starfsemi.
„Það eru bjartari dagar í vændum með betri mönnun og betra aðgengi að þjónustu,“ segir Svanhildur Þengilsdóttir svæðisstjóri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis.
Húsnæðið í Kjarna löngu sprungið
Heilsugæslan hefur verið starfrækt í Kjarnanum í um 20 ár, frá því íbúafjöldi var um 5.000, þar til nú þegar bæjarbúar eru að verða 12.000 talsins. Það er því ljóst að húsnæðið sem nú þjónar umdæminu er löngu sprungið.
„Það er ekki hægt að líkja saman aðstöðunni núna og þeirri sem verður á nýja staðnum. Stöðin verður öll nútímalegri og allt önnur vinnuaðstaða fyrir starfsfólk og aðkoma fyrir skjólstæðinga. Þetta verður flottasta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu og það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ segir Svanhildur.
Gert er ráð fyrir að lágmarki 10 læknum og vonast er til þess að stöðin verði eftirsóttur vinnustaður og sveitarfélaginu til sóma. „Við viljum auðvitað geta sinnt öllum íbúum sveitarfélagsins,“ segir Svanhildur en á nýju stöðinni verður gert ráð fyrir að hægt verði að sinna 12−15 þúsund manns.
Erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum
Í tilkynningu frá Heilsugæslunni á dögunum var beðist velvirðingar á því hve erfiðlega hefur gengið að sinna íbúum. Óvænt veikindi starfsmanna og breytingar á mönnun hafa valdið læknaskorti.
„Undanfarnir mánuðir hafi verið erfiðir hjá okkur og við höfum því miður ekki getað sinnt öllu því fólki sem leitar til okkar. Við höfum verið að glíma við heimilislæknaskort. Orðræðan sem fór af stað m.a. á samfélagsmiðlum fannst mér bæjarbúum ekki til sóma. Ýmsum rangfærslum var haldið fram sem ekki voru svaraverðar. Þeir sem hér vinna hafa alltaf lagt sig 150% fram við að mæta öllum þörfum þeirra sem hingað hafa leitað og þykir okkur því umræðan auðvitað leiðinleg og oftar en ekki ósanngjörn. Staðan í dag er orðin betri og við höfum fengið til okkar lækna til starfa, bæði nýja og frá öðrum stöðum.“
Sjá fram á öflugri Heilsugæslu Mosfellsumdæmis
Á heilsugæslu Mosfellsumdæmis eru skráðir 10.000 manns. Svanhildur segist ekki hafa orðið vör við flótta af stöðinni í Mosfellsbæ en þjónustan sé vissulega viðkvæm. „Við gerum allt sem við getum til að þjóna okkar fólki sem best og þykir miður að við höfum ekki náð að gera eins vel og við hefðum viljað.“
Jafnframt þakkar hún fyrir biðlund og traust sem íbúar hafa sýnt heilsugæslunni og sér fram á öflugri heilsugæslu.
„Við höfum ekki náð að halda uppi tveggja tíma síðdegisvakt með tveimur læknum eins og áður og auðvitað finnur fólk fyrir því og bregður jafnvel við að þurfa frá að hverfa. Við höfum þá vísað á síðdegisvakt í Grafarvogi og morgun- og síðdegismóttöku í Árbæ. Eftir kl. 17 er síðan hægt að leita á Læknavaktina í Austurveri. Við stefnum að því að endurvekja tveggja tíma síðdegisvakt hjá okkur enda viljum við hafa fólkið hjá okkur og ekki þurfa að vísa því í burtu. Í dag erum við afskaplega ánægð með að það sé að birta til og við höfum eitthvað til að hlakka til.“
Eins og fyrr segir munu framkvæmdir hefjast á næstu dögum. Formður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, Ásgeir Sveinsson, segir bæjaryfirvöld leggja á það mikla áherslu að jarðvinnu verði lokið áður en skólastarf í Krikaskóla hefst í haust.