Skálatún, sjálfseignarstofnun í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna efnir til samkeppni um nafn fyrir þjónustusvæði sem mun rísa á landi Skálatúns í Mosfellsbæ.
Þátttaka er öllum opin til 22. febrúar næstkomandi og vinningstillagan verður tilkynnt 7. mars. Verðlaun fyrir vinningstillöguna verða 150.000 kr.
Nafn þjónustusvæðisins skal hafa skírskotun til þess starfs sem þar mun fara fram og taka tillit til þess að þangað sæki aðallega börn og ungmenni.
Senda inn tillögu:
Dómnefnd verður skipuð fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Mosfellsbæ og auglýsingastofunni TVIST.
Þjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur
Á svæði Skálatúns í Mosfellsbæ hefur verið rekin þjónusta fyrir fatlað fólk um árabil, en svæðið mun taka breytingum til framtíðar og verða að þjónustuvæði fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Stofnanir á vegum ríkisins sem sinna málaflokknum munu flytjast á svæðið sem og aðrir opinberir aðilar, einkaaðilar og félagasamtök, en svæðið verður helgað þessum málaflokki einvörðungu.
Farsældarlögin og framtíð svæðisins
Árið 2022 tóku gildi lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, hin svonefndu farsældarlög, sem skylda þá aðila sem starfa með og fyrir börn og ungmenni til þess að setja barnið í miðjuna og vinna saman að heildarþjónustu kringum barnið. Þetta kemur í veg fyrir að barnið og fjölskylda þess þurfi að sækja þjónustu á marga mismunandi staði og halda utan um heildarmynd mála sinna sjálf. Þau börn sem nýta flóknari þjónustu eða þjónustu á mörgum sviðum fá málstjóra á vegum síns sveitarfélags sem heldur utan um mál þeirra.
Það svæði sem er að Skálatúni mun breytast í áþreifanlega mynd þessara nýju laga, þar sem á svæðinu verður fjöldi sérfræðinga og þjónustuaðila fyrir börn og ungmenni. Fjölskyldur þurfa því ekki að leita á marga mismunandi staði þegar svæðið verður tilbúið og ekki verður jafnflókið fyrir þjónustuveitendur að stilla sig saman í þágu barna og ungmenna, verandi að störfum á sama svæði. Auk þessa fellur verkefnið vel að hugmyndum ríkisins um svokallaðar Deiglur.