Fimmtudaginn 12. september 2019 kom hópur flóttafólks frá Kenía til Íslands. Um var að ræða 25 manns í allt en 11 þeirra settust að í Mosfellsbæ. Þetta er í annað skiptið sem Mosfellsbær tekur við flóttafólki en í mars 2018 komu tíu manns.
Fimmtudaginn 12. september 2019 kom hópur flóttafólks frá Kenía til Íslands. Um var að ræða 25 manns í allt en 11 þeirra settust að í Mosfellsbæ. Þetta er í annað skiptið sem Mosfellsbær tekur við flóttafólki en í mars 2018 komu tíu manns. Ein af ástæðunum fyrir því að leitað var aftur til Mosfellsbæjar var hversu vel bæjarfélagið og íbúar þess tóku á móti hópnum síðast og hversu vel gekk fyrir þau að aðlagast.
Daginn eftir komu þeirra mættu þessir nýju Mosfellingar á fund á bæjarskrifstofurnar þar sem þau voru boðin velkomin og farið var yfir hlutverk Mosfellsbæjar og Rauða krossins í móttöku þeirra. Það var ekki annað að sjá en að nýju Mosfellingarnir væru spenntir fyrir nýjum heimkynnum og þeim áskorunum sem bíða þeirra. Hópurinn fór í heimsókn á Slökkvistöðina í Mosfellsbæ, fulltrúi lögreglunnar kom í heimsókn og einnig var farið í rútuferð um Reykjavík.
Mosfellingar eru flott fólk sem tekur eflaust eins vel á móti hópnum núna eins og þeim síðasta. Lífið á Íslandi og í Mosfellsbæ er gjörólíkt því sem þau þekkja og margt nýtt að læra.